Vegir eru víða orðnir greiðfærir en enn er sums staðar vetrarfærð um landið norðanvert og flughálka á nokkrum útvegum, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.
Þar segir enn fremur að hætta sé á grjóthruni á þekktum stöðum og vegfarendur beðnir að fara þar með gát.
Enn er hálka eða hálkublettir víða á Vestfjörðum en vegir að mestu greiðfærir sunnan til. Vegurinn um Dynjandisheiði er lokaður vegna flughálku en vonast er til að hægt verði að opna hann síðar í dag.
Einnig er hálka eða hálkublettir víða á útvegum um allt land. Vegurinn um Öxi á Austurlandi er lokaður og þá er ófært um Vattarnes vegna skriðufalla.