8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Hættulegt að vera á ferðinni

Skyldulesning

Hættulegt er að vera á ferðinni á Suðausturlandi en þar fara vindhviður um og yfir 45 m/s með mögulegu sand- og grjótfoki. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og tryggja lausamuni. Viðvaranir eru í gildi á landinu öllu og er ekki von á að það lægi fyrr en á morgun. Þá tekur við hörkufrost.

„Norðanhvassviðri eða -stormur með snjókomu eða éljum á norðurhelmingi landsins, einkum á Norðaustur- og Austurlandi. Áfram norðanstormur í dag og lægir ekki að ráði fyrr en eftir hádegi á morgun, föstudag.

Einnig spáð norðanstormi eða -roki og öflugum vindhviðum undir Vatnajökli og í Mýrdal til hádegis á morgun. Mjög varasamt ferðaveður á þeim slóðum.

Búist er við norðan roki úti fyrir Norður- og Austurlandi. Stórstreymt er um þessar mundir þ.a. há ölduhæð og áhlaðandi getur valdið miklum ágangi sjávar við ströndina,“ segir í athugasemd veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðausturlandi og gildir hún til hádegis á morgun, föstudag. „Gengur í norðan og norðvestan 20-28 m/s, hvassast í Öræfum og undir austanverðum Vatnajökli. Einnig líkur á 20-25 m/s í Mýrdal. Vindhviður um og yfir 45 m/s með mögulegu sand- og grjótfoki. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og tryggja lausamuni. Hættulegt að vera á ferðinni.“

Gular viðvaranir eru í gildi annars staðar á landinu. Á Suðurlandi gildir hún til miðnættis en þar er norðan 18-28 m/s, hvassast undir Eyjafjöllum og í Mýrdal með vindhviðum yfir 40 m/s. Fólk er hvatt til að tryggja lausamuni til að forðast foktjón.

Við Faxaflóa er norðanstormur og gul viðvörun í gildi til miðnættis. „Norðanstormur, 18-25 m/s, með vindhviðum að 40 m/s. Í fyrstu er versta veðrið bundið við sunnanvert Sæfellsnes, en síðar má búast við varasömum vindstrengjum við fjöll víðar á svæðinu, t.d. á Kjalarnesi. Fólk er hvatt til að tryggja lausamuni til að forðast foktjón.“

Við Breiðafjörð gildir gul viðvörun til miðnættis. „Norðanhvassviðri eða -stormur 15-25 m/s með éljum og skafrenningi. Lélegt skyggni og slæm akstursskilyrði. Færð getur spillst.“

Vestfirðir –  gul viðvörun í gildi til miðnættis. „Norðanhvassviðri eða -stormur 15-25 m/s með snjókomu eða éljum og skafrenningi. Lélegt skyggni og slæm akstursskilyrði. Færð getur spillst.“

Strandir og Norðurland vestra – Norðanhvassviðri 13-20 m/s með snjókomu og skafrenningi. Lélegt skyggni og slæm akstursskilyrði. Færð getur spillst.

Á Norðurlandi eystra er gul viðvörun í gildi til klukkan 9 í fyrramálið, föstudag. „Norðanhvassviðri 13-20 m/s með snjókomu og skafrenningi. Lélegt skyggni og slæm akstursskilyrði. Færð getur spillst.“

Austurland að Glettingi gul viðvörun í gildi til miðnættis. „Norðanstormur 18-23 m/s með snjókomu og skafrenningi. Mjög lélegt skyggni og vond akstursskilyrði. Færð spillist líklega.“

Þar tekur ný viðvörun strax gildi á miðnætti og gildir til 9 í fyrramálið. „Norðan 13-20 m/s og snjókoma eða skafrenningur. Takmarkað skyggni og slæm akstursskilyrði.“

Á Austfjörðum er gul viðvörun í gildi þangað til 9 í fyrramálið. „Norðanstormur 18-25 m/s og hviður yfir 35 m/s. Snjókoma og skafrenningur, einkum norðan til. Lélegt skyggni og slæm akstursskilyrði, færð getur spillst.

Veðurspáin fyrir daginn í dag og næstu dagaNorðan 18-25 m/s, en hvassara í vindstrengjum sunnan Vatnajökuls. Snjókoma eða él og skafrenningur N- og A-lands, en annars úrkomulaust að kalla. Fer að draga úr vindi NV-til seint í kvöld. Frost 0 til 8 stig, mildast syðst.

Lægir á morgun, styttir upp og herðir frost. Norðlæg átt 3-13 m/s annað kvöld, hvassast A-til. Stöku él fyrir austan en þurrt og víða bjart annars staðar. Frost 2 til 12 stig, mildast við SA-ströndina.

Á föstudag: Norðan 13-20 m/s, en hvassara í fyrstu SA-lands. Él á Norður- og Austurlandi, en annars víða bjartviðri. Lægir og styttir upp síðdegis, fyrst N-lands. Frost 3 til 14 stig, kaldast inn til landsins.

Á laugardag: Hæg suðvestlæg eða breytileg átt og víða bjartviðri, en líkur á stöku éljum við SV-ströndina. Frost víða 4 til 18 stig, mildast syðst.

Á sunnudag: Suðaustan 3-10, hvassast við S-ströndina. Dálítil él við S- og V-ströndina, en annars bjartviðri. Dregur heldur úr frosti.

Á mánudag og þriðjudag: Áfram hægar austlægar áttir með éljum á víð og dreif. Frost 0 til 6 stig. Á miðvikudag: Útlit fyrir austan golu með úrkomulitlu og hægt hlýnandi veðri.

Innlendar Fréttir