7.3 C
Grindavik
4. október, 2022

Haffi Haff húðflúraði á sig nafn „engils“ sem bjargaði lífi hans – „Svo sá ég þessi björtu ljós“

Skyldulesning

Tónlistarmaðurinn Hafsteinn Þór Guðjónsson, eða Haffi Haff eins og hann er kallaður, flutti lagið „Gía“ á fyrra undankvöldi Söngvakeppni Sjónvarpsins síðastliðið laugardagskvöld.

Í viðtali eftir atriðið sagði Haffi Haff frá því að hann væri með tvö ný húðflúr, nöfnin á tveimur einstaklingum. Annar þeirra er Ársæll Gabríel frá Akureyri. „Hann er bara rosalega flottur maður sem bjargaði lífi mínu úti í snjónum,“ sagði Haffi Haff.

Hitt nafnið er Carol. „Hún er kona sem er með mjög stórt hjarta. Við fengum okkur epli og diet Doctor Pepper einu sinni,“ sagði hann í samtali við Björg Magnúsdóttur í Græna herberginu í Gufunesinu.

Við heyrðum í tónlistarmanninum og fengum að vita söguna á bak við þessi nöfn og hvaða hlutverk þau hafa spilað í lífi hans.

Ársæll Gabríel. Skjáskot/RÚV

Ársæll Gabríel

Haffi Haff lýsir kynnum sínum af Ársæli Gabríel, sem tónlistarmaðurinn kallar engil.  „Ég var að fara frá Sauðakróki en við vorum að taka upp myndbandið fyrir „Gía“. Ég var að fara í myndatöku næsta dag klukkan hálf níu þannig ég þurfti að fara heim kvöldið áður. Það var mikil snjókoma en ég ákvað bara að fara, bara ókei, við erum Íslendingar, ekkert mál,“ segir hann.

„Það var svo mikill snjór þegar ég kom að Blönduósi að ég gat ekki keyrt lengur og fór út af veginum. Ég fór alveg nokkrum sinnum í hring og fór aftur á bak út af, bíllinn fór ekki á hvolf en fór ansi nálægt því.“ Sem betur fer var hann ómeiddur.

Þeir sem þekkja Haffa vita að hann er ákveðinn og ætlaði hann að skófla bílinn sjálfur út. Hann var þó aðeins vopnaður lítilli sköfu og tók það langan tíma að komast eitthvað áleiðis, sem var svo ekki nóg. Hann hringdi í 112, hann fékk þau svör að þau gætu ekki hjálpað honum þar sem hann var ekki á höfuðborgarsvæðinu og fékk hann þá annað númer til að hringja í. Þá var honum sagt að hringja í dráttarbíl, sem hann gerði, og fékk að vita að biðin yrði löng.

„Málið er, það getur bara verið kveikt á bílnum í takmarkaðan tíma, á endanum verður hann bensínlaus og svo hefði ég örugglega þurft að bíða fram undir morgun eftir dráttarbílnum. En svo sá ég þessi björtu ljós,“ segir Haffi Haff og er þá að lýsa komu Ársæls Gabríels.

„Hann var í fallegum sendiferðabíl. Ég er með sterka trú, hlutirnir gerast af ástæðu og þeir eru eins og þeir eru af ástæðu. Þannig ég er bara að bíða og sjá hvað gerist, þó ég vissi að ég þyrfti að skófla mig út, eins mikið og ég gat. Ég er svo ákveðin manneskja, ég ætlaði ekki að leyfa neinu að stöðva mig. Líka, ef þú þarft að gera eitthvað þá gerirðu það, það er ekki spurning um hvort heldur hvenær.“

Skjáskot/RÚV

Haffi og Ársæll Gabríel áttuðu sig á því að þeir myndu ekki ná bílnum aftur á veginn. „Ég tók dótið mitt úr bílnum og færði yfir í sendiferðabíl Ársæls og fékk far með honum. Við komumst að því að við þekkjumst frá því í gamla daga þegar við höfum spilað saman. Ég hef verið í bransanum í fjórtán ár, ég hef einhvern tíma hitt á einhvern og hann er svona „house DJ“.“

Haffi Haff var með stóran þráðlausan hátalara meðferðis og spilaði tónlist fyrir þá á leiðinni í Varmahlíð og þeir áttu gott spjall.

Safnar nöfnum

Haffi Haff er að safna húðflúrum með nöfnum á líkama sinn. Fyrsta nafnið sem hann fékk sér var nafn frænda hans, Gunnars Guðjónssonar, sem er 83 ára.

„Rithönd fólks er mesta list sem þú getur verið með. Rithönd fólks er það sjálft. Hver sem er getur sett hjarta eða strik á striga, en þú getur ekki skipt út manneskju. Einhver sagði við mig um daginn: „Oh, þau eru að fara að rífa niður dómkirkjuna“ og ég sagði: „Já, og hvað með fólkið sem er að deyja?“ Maður fær fólk ekki til baka, mér er skítsama um kirkjuna, afsakið orðbragðið, en mér er ekki sama um fólk. Þess vegna vil ég safna nöfnum fólks í handskrift þeirra.“

Carol. Skjáskot/RÚV

Carol

„Carol er kona sem ég kynntist í Montana, þetta er löng saga sem ég ætla ekki að fara yfir, en ég áttaði mig á því að hún væri að vinna sem engill. Alveg eins og Ársæll Gabríel, en þetta er hluti af trú minni að „Big G“ er alls staðar að vinna, allan daginn, meira að segja á erfiðum augnablikum, og maður þarf bara aðeins að taka skref aftur og virkilega fylgjast með til að sjá hvernig þú ætlar að taka þátt í því sem er að gerast fyrir framan þig. Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef engar áhyggjur af keppninni, ég veit að þetta er allt hluti af stærra plani,“ segir hann.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir