hafnar-asokunum-kolbrunar-og-kristinar

Hafnar ásökunum Kolbrúnar og Kristínar

Ásgeir hafnar öllum ásökunum.

Ásgeir hafnar öllum ásökunum. Ljósmynd/Ásgeir Sveinsson

„Ég er bara orðlaus. Þetta kemur mér í opna skjöldu,“ segir Ásgeir Sveinsson, nýr oddviti Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ, við ásökunum annarra frambjóðenda um óheiðarlega kosningabaráttu.

Frambjóðendurnir Kol­brún G. Þor­steins­dótt­ir bæj­ar­full­trúi og Krist­ín Ýr Pálm­ars­dótt­ir vara­bæj­ar­full­trúi saka Ásgeir um að hafa rekið óheiðarlega kosn­inga­bar­áttu. 

„Fyrir mér eiga þær ekki við nein rök að styðjast. Hvað varðar tímasetninguna þá er óþægilegt og skrítið að heyra af þessu núna, daginn eftir að niðurstöður prófkjörsins liggja fyrir.“

Þar vísar Ásgeir í orð Kolbrúnar um að hún hafi síðastliðin tvö ár fengið hótunarsímtöl frá stuðningsmönnum hans. Ásgeir segist ekki hafa vitað af hótununum og lítur málið grafalvarlegum augum. Hann hefði viljað vita af málinu fyrr.

„Það voru engar hótanir á mínum vegum. Þeir sem þekkja mig vita ég myndi ekki beita mér þannig.“

Hafi ekki talaði um annað fólk

Ásgeir hafnar öllum ásökunum Kolbrúnar. Hann segist hafa farið hefðbundnar leiðir í prófkjörinu, líkt og öðrum prófkjörum sem hann hefur tekið þátt í.

„Mér þykir mjög leitt að heyra gagnrýni Kolbrúnar og Kristínar um að ég hafi rekið óheiðarlega kosningabaráttu. Baráttan var að mínu mati ekki óheiðarleg. Ég fór mjög hefðbundnar leiðir í þessu prófkjöri. Ég var eingöngu að tala um mig og það sem ég hef fram að færa en ekki annað fólk. Ég talaði ekki um hennar persónulegu mál.“

Bæði fengið atkvæði frá Aftureldingu 

Kolbrún sakar Ásgeir um að hafa notað íþrótta­hreyf­ing­una og stór­an bygg­ing­ar­verk­taka í bæn­um til að ná þeim ár­angri sem raun ber vitni.

„Ég fékk örugglega fullt af atkvæðum frá fólki sem er í Aftureldingu en ég geri ráð fyrir að Kolbrún hafi líka fengið mörg atkvæði frá fólki sem er í íþróttahreyfingunni. Varðandi þennan byggingarverktaka veit ég ekkert hvað hún er að tala um,“ segir Ásgeir.

Óttast ekki klofningsframboð

Ásgeir segir ásakanir Kolbrúnar og Kristínar koma sér sértaklega á óvart þar sem þau hafi átt í góðu samstarfi á kjörtímabilinu.

„Okkar samstarf hefur verið mjög gott á hinum pólitíska vettvangi. Mér þykir leitt að sjá þær hverfa úr starfinu eftir þetta frábæra samstarf. Þetta er mikill missir fyrir flokkinn en við hlökkum bara til að takast á við kosningabaráttuna sem er framundan.“

Spurður hvort hann óttist klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum segist hann ekki gera það.

„Ég fékk mjög afgerandi kosningu í fyrsta sætið. Ég er með sterkt umboð og mjög sterkan lista á bak við mig. Við ætlum að halda áfram að vinna að málefnum Mosfellsbæjar af sama krafti og við höfum gert á þessu kjörtímabili.“


Posted

in

by

Tags: