Vetrarfærð er í flestum landshlutum. Snjóað hefur á Vestur- og Suðvesturlandi í nótt og stendur hreinsun yfir samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.
Hálka eða hálkublettir víða á vegum á Suðvesturlandi. Snjóþekja á Hellisheiði og í Þrengslum. Víðast hvar er hálka eða snjóþekja á vegum á Vesturlandi. Þungfært er um Fróðárheiði og flughálka í Lundarreykjadal.
Snjóþekja eða hálka á öllum leiðum Vestfjarða. Þæfingsfærð er á Klettshálsi sem og norður í Árneshrepp. Vetrarfærð er á Norðurlandi, hálka eða snjóþekja á vegum. Hálka er inn til landsins á Norðausturlandi en hálkublettir með ströndinni.
Hálka eða hálkublettir eru víðast hvar á Austurlandi en greiðfært sunnan Berufjarðar. Vegurinn um Öxi er lokaður. Greiðfært er austan við Lómagnúp en hálkublettir eða hálka þar fyrir vestan. Snjóþekja, hálka eða hálkublettir á vegum á Suðurlandi.