Hampiðjan stokkar upp í Mørenot

0
175

Hampiðjan er frægust fyrir að þjónusta sjávarútveginn og festi fyrirtækið kaup á norsku félagi í vetur. mbl.is/Hari

Ákvörðun hefur verið tekin um að skipta rekstri Mørenot upp og fella undirliggjandi starfsemi undir þrjár meginstoðir. Þá hefur einnig verið samið um starfslok Arne Birkeland, forstjóra Mørenot, og Kjell Magne Sunde, fjármálastjóra Mørenot, og verða stöðugildi þeirra lögð niður, að því er fram kemur í tilkynningu Hampiðjunnar til Kauphallarinnar í dag.

Jafnfram hefur verið ákveðið að loka aðalskrifstofunni í Moa í Álasundi og flytja starfsmenn í húsnæði Mørenot í Gangstøvika, austarlega í Álasundi, og hluta til Søvik, norðan við Álasund ásamt því að leigja eða kaupa minna skrifstofuhúsnæði í Álasundi fyrir Mørenot Aquaculture.

Hampiðjan festi kaup á norska félaginu Mørenot 7. febrúar síðastliðinn.

Í tilkynningunni segir að „rekstur samstæðu Mørenot hefur verið þungur undanfarin ár og ein ástæða þess er að yfirbygging fyrirtækisins hefur verið of umfangsmikil og kostnaðarsöm miðað við undirliggjandi starfsemi.“ Þá hafi verið unnið „markvisst að hagræðingaraðgerðum til að bæta rekstur félagsins og fella hann að starfsemi Hampiðjunnar.“

Skýrari afkoma hverrar einingar „Skipulag Mørenot samstæðunnar samanstendur af eignarhaldsfélögum með fjölmörgum dótturfélögum þar sem helst er að nefna Mørenot Aquaculture, Mørenot Fishery og Mørenot Offshore og síðan dótturfyrirtæki utan Noregs, í Bandaríkjunum, Kanada, Íslandi, Bretlandi, Danmörku, Póllandi, Litháen og Kína ásamt fasteignafélögum sem haldið hafa utan um fasteignir Mørenot í Noregi. Í móðurfélaginu eru helstu stjórnendur ásamt starfsmönnum í sölu, bókhaldi, mannauðsmálum og upplýsingartækni,“ segir í tilkynningunni.

Markmiðið með endurskipulagningunni er sögð vera að gera afkomu hverrar einingar skýrari og sjálfstæðari og verða stoðirnar þrjár: Mørenot Aquaculture, Mørenot Fishery og Hampidjan Advant sem er sameinað félag Mørenot Offshore og Hampiðjan Offshore.