„Hann kemur heim sem fullbúið karldýr“ – Vísir

0
125

„Hann kemur heim sem fullbúið karldýr“ Jón Már Ferro skrifar 4. maí 2023 14:00

Stefán Ingi Sigurðarson er markahæsti leikmaður Bestu deildar karla eftir fjórar umferðir. Hann hefur skorað fimm mörk þrátt fyrir að hafa ekki verið í byrjunarliði Breiðabliks í upphafi móts.

Á síðasta ári var Stefán á láni hjá HK og skoraði sextán mörk í fimmtán leikjum í Lengjudeildinni. Óhætt er því að segja að hann sé markaskorari af Guðs náð.

Um jólin útskrifaðist Stefán úr Boston College í Bandaríkjunum þar sem hann hefur stundað nám í viðskiptafræði. Boston College er virtur háskóli á heimsmælikvarða í viðskipfræðum.

Í bandaríska háskólaboltanum skoraði hann 28 mörk í 53 leikjum fyrir Boston College í Atlantic Coast Conference á árunum 2019-2022.

Blikar fögnuðu vel og innilega þegar Stefán gulltryggði sigurinn gegn Val.vísir/hulda margrét Íþróttadeild Vísis hafði samband Brynjar Benediktsson, annan eigenda Soccer and Education USA. Fyrirtækið aðstoðar leikmenn við að komast út á háskólastyrk.

„Fótbolti er ekki bara fótbolti. Í dag þarftu að vera með líkamlegt atgervi í lagi. Svo þarftu að vera andlega sterkur. Það segir sig sjálft að ef þú ferð einn út til Bandaríkjanna þá ertu að fara styrkjast mikið og þroskast. Það er risastór þáttur í fótbolta. Hann kemur heim sem fullbúið karldýr,“ segir Brynjar.

„Deildin sem hann var í, ACC, er sterkasta deildin í bandaríska háskólaboltanum. Hann er bara að spila á móti góðum liðum. Hann spilaði á móti fullt af leikmönnum sem eru í MLS í dag og nokkrir á Englandi,“ segir Brynjar.

„La Liga sendir fimmtíu leikmenn á ári út úr akademíum sem eru góðir í skóla og eru ekki að fá samning hjá góðum liðum átján ára. Franska sambandið, ítalska sambandið og spænska sambandið eru að hvetja leikmenn til að fara til Bandaríkjanna,“ segir Brynjar.

Breiðablik fer í Garðabæinn í kvöld og mætir Stjörnunni klukkan 19:15 í Bestu deildinni.