8.4 C
Grindavik
14. júní, 2021

Hanna takkaskó fyrir konur – „Við bara spurðum konur hvað þær vildu og gerðum það“

Skyldulesning

Knattspyrnuskór hannaðir fyrir konur er vara sem erfitt er að finna. Ef litið er á stærstu íþróttamerki í heimi er hægt að finna knattspyrnuskó fyrir konur en þeir eru ekki hannaðir með þarfir þeirra að leiðarljósi.

Ida Sports er íþróttavöruframleiðandi sem sérhæfir sig í að framleiða takkaskó sem eru hannaðir með þarfir kvenna að leiðarljósi en ekki minni útgáfa af takkaskóm sem hannaðir eru fyrir karla. The Guardian vakti athygli á skónum.

Þrengri hælar og víðari um tærnar

Það sem Ida Sports gerir öðruvísi en aðrir framleiðendur er að hælarnir eru þrengri, svæðið utan um tærnar er víðara, þeir beygjast á örlítið öðrum stað og innleggin og takkarnir eru öðruvísi.

Laura Youngson og Ben Sandhu eru stofnendur Ida Sports. Youngson hefur sjálf þurft að nota takkaskó fyrir börn en líkar það ekki. „Efnið er ekki eins gott og í fullorðins skóm og litirnir eru ömurlegir. Þegar ég komst að því að knattspyrnukonur á heimsmælikvarða væru að nota takkaskó fyrir karla fannst mér það fáránlegt.“

Youngson byrjaði að rannsaka þessa hluti í heimalandi sínu Ástralíu og byrjaði síðan að þróa skóna. Hún bjó til skó í eldhúsinu heima hjá sér og fékk leikmenn til að prufa þá og þróaði þá svo áfram.

The Guardian

„Við gerðum svolítið klikkað“

Skórnir voru prufaðir hjá leikmönnum í Ástralíu áður en fundin var lokaútkoman sem er við það að seljast upp. „Við gerðum svolítið klikkað. Við bara spurðum konur hvað þær vildu og gerðum það.“

Skórnir hafa fengið mikið lof og sagði ein að þeir væru eins og knús í takkaskóm. Olivia Price, sem spilar fyrir Western Sydney Wanderers, hefur notað skóna í um það bil átta mánuði og er ánægð með þá. „Ég fékk engar blöðrur eða neitt eftir fyrstu notkun. Þeir passa fætinum mínum mjög vel. Þetta er næstum eins og að labba á skýi, þeir hafa mjög mjúkan stuðning.“

Minnka líkur á meiðslum

Matt Whalan, sjúkraþjálfari hjá áströlsku landsliðunum í fótbolta er hrifinn af skónum sem virðast minnka líkur á meiðslum meðal kvenna.

„Margar rannsóknir sýna að konur eiga í meiri hættu en karlar að slíta krossband. Það sem er auðveldast að gera er að skoða sambandið við jörðina og snúninginn sem leikmennirnir gera mikið í fótbolta,“ segir Whalan.

Hann segir mikilvægt að ná grunnatriðunum rétt þegar kemur að þessum meiðslum. „Það er kannski 10 kílóa munur á konum og körlum og við ætlum að setja þau í sömu takkaskóna sem hafa ákveðið grip, stífleika og sem þurfa ákveðið vöðvaafl til að stjórna því hvernig skórinn hagar sér. Þurfa konur jafn langa takka og karlar? Meiðslahættan kemur þegar gripið er of mikið.“

Stóru vörumerkin að taka við sér

Stóru íþróttavörumerkin eru farin að framleiða meira fyrir konur. Asics framleiðir krikketskó fyrir konur og Under Armour framleiðir körfuboltaskó fyrir konur. Nike og Adidas framleiddu búninga fyrir HM kvenna í fyrra sem voru sérstaklega hannaðir fyrir konur.

Ida Sports hefur lagt grunninn og ætla að taka hönnunina á næsta stall. „Við ætlum að hjálpa leikmönnum að ná í þessi 1%, 2%, 3% aukalega sem munu hjálpa þeim að vinna titla.“

The Guardian

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir