10.3 C
Grindavik
16. september, 2021

Hannes Hólmsteinn ræðst á bók Ólínu – „Undirtitill hennar gæti verið: Hvers vegna enginn vill ráða mig í vinnu“

Skyldulesning

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, hefur nú ritað tvær greinar undanfarna daga þar sem hann fer ófögrum orðum um Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur og bók hennar , Spegill fyrir skuggabaldur. Skrifaði hann bæði um málið í Morgunblaðinu á föstudag sem og á Eyjunni í gær.

„Árið 1948 gaf Jóhannes S. Birkiland út bókina Harmsögu æfi minnar: Hvers vegna ég varð auðnuleysingi. Þjóðin brosti, ef til vill ekki alltaf góðlátlega, og Megas söng um hann vísur. Árið 2020 gefur Ólína Þ. Kjerúlf út bókina Spegil fyrir skuggabaldur: atvinnubann og misbeiting valds. Undirtitill hennar gæti verið: Hvers vegna enginn vill ráða mig í vinnu. Og þjóðin andvarpar og spyr, hvort blessuð konan ætti ekki að líta í eigin barm í leit að skýringu.“

Vísar hann til þess að í bók sinni færir Ólína rök fyrir því að bækur Halldórs Laxness hafi ekki komið út í Bandaríkjunum á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar því íslensk og bandarísk stjórnvöld hafi lagst gegn því. Hefur Ólína átt í ritdeilu  vegna þessa máls við Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, undanfarnar vikur.

Ólína hefur lagt fram skjöl máli sínu til stuðnings, en Hannes Hólmsteinn segir skjölin ekki styðja við mál hennar.

Þau eru um áhuga stjórnvalda á að rannsaka, hvort Laxness hefði vantalið tekjur frá Bandaríkjunum í íslensku skattframtali sínu og brotið reglur um skil á gjaldeyristekjum, og reyndist svo hvort tveggja vera.

Hannes segir að Ólína veifi skjölunum með „fyrirgangi og þjósti“ og séu þau um allt annað efni en umræðan snúist um.

„Hún fetar þannig ekki aðeins í fótspor Birkilands, heldur líka Ólafs Friðrikssonar Möllers, kaffihúsaspekings í Reykjavík og eins helsta frumkvöðuls jafnaðarstefnu á Íslandi. Ungur og óreyndur vinstri maður ætlaði eitt sinn í framboði. Hann spurði Ólaf, hvernig hann skyldi bregðast við frammíköllum á fundum. „Uss, það er ekkert mál,“ svaraði Ólafur. „Þú gerir bara það sama og ég gerði einu sinni á fundi, þegar einhver náungi fór að kalla fram í fyrir mér. Þá hvessti ég á hann augun og sagði hátt og snjallt: Þú varst ekki svona borubrattur forðum, þegar þú grést úti í Viðey! Maðurinn snarþagnaði. Hann hafði sennilega aldrei komið út í Viðey. En við þessu átti hann ekkert svar.“

Þeir Jóhannes Birkiland og Ólafur Möller enduðu að vísu báðir á Kleppi. En sem betur fer hefur viðhorf okkar til furðufugla breyst.“

Athygli vekur að Hannes Hólmsteinn kallar Ólínu í greinum sínum, Kjerúlf, eða það vakti í það minnsta athygli Reynis Traustasonar, ritstjóra Mannlífs.

Hann ritar í ritstjórnargrein:

„Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor er einhver stríðsglaðasti fræðimaður sem um getur í seinni tíma sögu Íslendinga. Hann leggur lykkju á leið sína til að taka þátt í ritdeilu dr. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur og Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, um aðför íslenskra stjórnvalda að Nóbelsskáldinu Halldóri Kiljan Laxness, sem að sögn var skákað út af Bandaríkjamarkaði með bækur sínar. Hannes Hólmsteinn ritar grein í Morgunblaðið þar sem hans innlegg er að andúð stjórnvalda á skáldinu hafi ekkert haft að segja með það bækur hans hurfu af markaði í Bandaríkjunum, eins og Ólína og Halldór Guðmundsson, ævisagnahöfundur skáldsins, hafa haldið og stutt með gögnum. Hannes Hólmsteinn er reyndar líka ævisöguhöfundur skáldsins og skrifaði umdeilda þriggja binda ritröð þar sem heimildavinna var nokkuð úr lagi gengin.

Hannes er sjálfur fórnarlamb þess að fólk hefur snúið út úr nafni hans. Það vekur því sérstaka athygli að prófessorinn riðlast á nafni Ólínu og kallar hana ýmist Ólínu Þ. Kjerúlf eða einfaldlega Kjerúlf. „Þau Kjerúlf og Halldór vitna til gagna úr bandarískum skjalasöfnum …“, skrifar Hannes Hólmsteinn. Yfirleitt er það talið einkenni um lélega málefnastöðu þegar menn taka til við að hræra í nöfnum fólks“

Ólína segir kvenfyrirlitningu og mannfyrirlitningu ekki ríða við einteyming hjá Sjálfstæðis- og Morgunblaðsmönnum

„Mannfyrirlitningin – kvenfyrirlitningin – ríður ekki við einteyming hjá þeim Sjálfstæðis- og Morgunblaðsmönnum, hvorki ritstjórum né fylgisveinum. Sem sjá má eru þessir menn úr öllum takti við tímann – búnir að lifa sjálfa sig. Erindislausir í umræðunni,“ skrifar hún á Facebook

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir