Harkalegt kynlíf áberandi í máli þar sem karlmaður var sýknaður af ákæru um nauðgun – DV

0
105

Karlmaður var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sýknaður af ákæru um að hafa nauðgað bólfélaga sínum, en hún hafði kært hann til lögreglu fyrir að hafa haft við hana endaþarmsmök án samþykkis og fyrir að hafa beitt hana ofbeldi á meðan á samförum stóð. Taldi dómarinn að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna, gegn neitun ákærða, að hann væri sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök.

Athugið að eftirfarandi lýsingar gætu komið illa við lesendur. 

Konan og maðurinn kynntust í gegnum Instagram þar sem þau áttu í samskiptum sem þróuðust út í kynferðislegt samband, þrátt fyrir að maðurinn ætti fyrir sambýliskonu. Taldi konan að maðurinn ætlaði að yfirgefa sambýliskonuna og byrja með henni, en maðurinn hafði þó ekki ætlað sér slíkt.

Samkvæmt ákæru var manninum gert að sök að hafa, eftir að hann og konan hófu samfarir með vilja beggja, beitt hana ofbeldi og ólögmætri nauðung er hann hafði við hana önnur kynferðismök án samþykkis. Var hann sagður hafa bitið konuna í nokkur skipti í bakið, slegið hana utan undir, haldið fótleggjum og höndum hennar niðri og tekið um háls hennar og þrengt að á meðan hann hafði endaþarmsmök við hana. Þetta hafi hann gert þrátt fyrir að hún hefði með orðum og athöfnum reynt að fá hann til að láta af háttseminni. Við þetta hafi konan hlotið mar og eymsli framan á hálsi, roða við bringu hægra megin, mar á baki, mar á báðum handleggjum og eymsli á vinstri fæti.

Fór konan fram á 2,5 milljónir í miskabætur.

Hófu samfarir með vilja beggja Konan leitaði júní árið 2020 á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Þar greindi hún frá því að hún vildi leggja fram kæru vegna kynferðisbrots sem maðurinn hefði framið í maí. Þar lýsti hún því svo að hún og maðurinn hefðu verið að hittast í einhvern tíma og umrædda nótt hafi hún farið með vinkonum að sækja manninn niður í bæ. Eftir það hafi þau farið heim til konunnar og hefðu vinkonurnar yfirgefið svæðið og kona og maðurinn orðið ein eftir og hafi ætlað að stunda kynlíf.

Maðurinn hafi þó orðið mjög ákafur og farið að bíta konuna mjög fast og tekið svo fast í hana að hún meiddi sig. Hún hafi enga athugasemd gert við það. Hann hafi svo beðið um að „fara í rassinn“ en hún hafi neitað því. Hafi maðurinn engu að síður haldið áfram að reyna að koma lim sínum í endaþarm hennar, þrátt fyrir að konan bæði hann ítrekað um að hætta og reyndi að komast undan honum. Hann hafi jafnframt bitið hana, slegið hana utan undir og þrengt að hálsi hennar svo hún náði ekki andanum. Loks hafi maðurinn látið af athæfinu og hafi hún þá leyft honum að hafa samfarir við sig í gegnum leggöng í von um að hann myndi þá ljúka sér af og yfirgefa heimili hennar.

Eftir að hann var farin hafi hún hringt í vinkonu sína og þær farið saman á Neyðarmóttöku.

Sagðist ekki hafa beitt neinum þvingunum Maðurinn lýsti þó kvöldinu svo að þau hefðu farið saman heim til konunnar og stundað þar kynlíf. Allt hefði gengið vel. Þau hefðu stundað kynlíf í gegnum leggöng og svo ákveðið að stunda líka endaþarmsmök en það hafi gengið illa og honum rétt tekist að koma limnum þangað inn. Þau hefðu svo stundað aftur kynlíf um leggöng. Hefði konan aldrei gefið til kynna að nokkuð væri að og aldrei beðið hann um að hætta. Hefði hún tekið fullan þátt og engin þvingun verið til staðar. Konan hefði viljað að tekið væri í hár hennar, „að láta narta í sig og kyrkja sig og þetta kvöld var hún með tvo góða sogbletti,“ eftir manninn. Hann hefði líka slegið hana í tvígang en hún hafi sagt að henni líkaði slíkt og hefði ekki kvartað.

Hún hefði svo fylgt honum til dyra og kysst hann. Konan hefði verið að reka á eftir honum að hætta með sambýliskonu sinni og þetta kvöld hefði hann greint henni frá því að slíkt væri ekki á dagskrá og jafnvel þó hann og sambýliskonan hættu saman þýddi það ekki að hann ætlaði að byrja með konunni. Taldi maðurinn að við þetta hafi konunni sárnað.

Í málinu kom fram að konan hefði líka átt í kynferðislegu sambandi við besta vin mannsins og hafi það kynlíf einnig verið harkalegt. Eins bar vitni í málinu fyrrum vinkona konunnar sem sagðist einnig vita til þess að konan vildi láta stjórna sér í kynlífi og taka harkalega á sér.

Konan og maðurinn hittust heima hjá besta vini mannsins nokkrum dögum eftir atvikið. Bar þeim ekki saman um hvað þeirra fór þá á milli. Maðurinn segir að hann hafi beðist afsökunar á því að hafa dregið hana á asnaeyrunum tilfinningalega og harmaði upplifun hennar af umræddu kvöldi. Konan sagði að hann hafi beðist afsökunar á að hafa farið yfir mörk. Vinurinn greindi frá því að við lok þessa fundar hafi konan og maðurinn kvatt hvort annað með kossi og faðmlagi.

Maðurinn greindi frá því að hafa frétt af því að konan væri að segja hverjum sem er frá því að hann hefði nauðgað henni og hefði hún verið með kæruna uppi á bar í bænum. Hún hefði líka sent skilaboð á sambýliskonu hans og spurt hana hvort hún ætlaði virkilega að vera með þessum manni áfram. +

Skynsamlegur vafi sem mátti ekki skýra manninum í óhag Dómari rakti að að ljóst væri af málinu að maðurinn og konan hefðu átt í kynferðissambandi. Í þessu máli hafi þau hafið samfarir með samþykki beggja, en slíkt samþykki væri eðli máls samkvæmt afturkallanlegt. Í málinu greindi konunni og manninum á um hvort að maðurinn hafi einnig haft við hana mök gegn vilja hennar og það þrátt fyrir að hún hafi látið þann vilja í ljós bæði með orðum og mótspyrnu. Væru þau ein til frásagnar.

Konan hafi leitað á Neyðarmóttöku stuttu eftir að maðurinn yfirgaf heimili hennar og var þá með nokkra áverka og af vitnisburði sálfræðinga að dæma væri ljóst að hún hefði upplifað áfall.

„Ákærði og brotaþoli lýsa kynferðissambandi sínu að nokkru leyti ólíkt og má segja að ákærði dragi upp mynd af grófara kynlífi en brotaþoli gerir. Samkvæmt ákærða stunduðu þau ekki aðeins kynlíf um leggöng heldur undantekningalítið einnig um endaþarm. Ákærði sagði að brotaþoli hafi viljað „láta taka á sér“. Hún hefði viljað harkalegt kynlíf og meðal annars viljað láta „kyrkja sig“ og „narta í síg“.“

„Á hinn bóginn hefur eitt og annað verið fært fram til stuðnings því að brotaþoli hafi í raun haft ánægju af fremur harkalegu kynlífi. Framburður ákærða um kynlíf þeirra hefur ekki verið hrakinn. Um það, hvernig kynlíf ákærða og brotaþola hefur að jafnaði verið háttað að þessu leyti, þykir vera skynsamlegur vafi sem ekki er heimilt að skýra ákærða í óhag samkvæmt meginreglum sakamálaréttarfars.“

Konan hafi ekki verið með áverka á kynfærum eða endaþarmi. Á hálsi hafi verið blettur sem gæti verið eftir bit en gæti þó líka verið sogblettur. Af framburði læknis að dæma væri ekki hægt að fullyrða að áverka hennar mætti rekja til kynferðismaka án samþykkis. Að öllu þessu gætt taldi dómari að til staðar væri skynsamlegur vafi um sekt ákærða og bæri því að sýkna hann og vísa bótakröfu frá.