5 C
Grindavik
18. apríl, 2021

Hefur átt erfitt með svefn og leitaði sér læknisaðstoðar eftir leik Istanbul og PSG

Skyldulesning

Pierre Webo, aðstoðarþjálfari Istanbul Basaksehir segir að litið verði á 8. desember 2020, sem mikilvæga dagsetningu í baráttunni gegn rasisma í knattspyrnuheiminum.

Leikmenn Istanbul og Paris Saint-Germain yfirgáfu knattspyrnuvöllinn í leik liðana í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn síðastliðinn eftir meintan kynþáttaníð fjórða dómara leiksins gagnvart Pierre Webo. Leiknum var síðar frestað þar til daginn eftir.

Webo segir í samtali við BBC að undanfarnir dagar hafi verið erfiðir og líklegast þeir erfiðustu á hans knattspyrnuferli. Webo hefur átt erfitt með svefn eftir leikinn og hefur þurft að leita sér læknisaðstoðar sökum þess.

„Í mínum huga getum við horft á aðstæður og viðhorf í knattspyrnuheiminum fyrir 8. desember og eftir, fólk mun muna eftir þessu,“ sagði Webo í viðtali við BBC.

Webo segir að leikmennirnir hafi þetta kvöld sýnt gott fordæmi og að þeir myndu gera þetta aftur ef þeir þyrftu.

„Við sýndum að við erum ekki hræddir við að yfirgefa völlinn. Dómarinn getur ekki stöðvað það, þetta er undir leikmönnum komið,“ sagði Pierre Webo.

Webo sneri sér að knattspyrnuþjálfun eftir sinn knattspyrnuferil. Á sínum ferli sem leikmaður lék hann með liðum á borð við Osasuna, Mallorca og Fenerbahce, auk þess á hann að baki 58 landsleiki fyrir landslið Kamerún.

Innlendar Fréttir