Aron Guðmundsson skrifar 11. maí 2023 16:30
Tom Brady, goðsögn í sögu NFL-deildarinnar, verður heiðraður af New England Patriots fyrir fyrsta heimaleik liðsins á næsta tímabili. Þetta staðfestir eigandi liðsins, Robert Kraft.
Brady lagði skóna á hilluna á síðasta tímabili eftir magnaðan 23 tímabila feril í NFL-deildinni þar sem að hann varð meistari alls sjö sinnum.
Sex af hans sjö titlum vann hann með Patriots en hann var leikmaður liðsins fyrstu tuttugu tímabil síns NFL-ferils.
Brady er þar af leiðandi í guðatölu hjá stuðningsmönnum Patriots og segir Kraft að hann sé spenntur fyrir því að snúa aftur á heimavöll liðsins:
„Þetta verður sannkölluð hátíð,“ lét hann hafa eftir sér í samtali við ESPN.
Brady þurfti að vera skorinorður í byrjun febrúarmánaðar á þessu ári er hann tilkynnti um ákvörðun sína þess efnis að láta gott heita af leikmannaferli sínum í NFL-deildinni. Einu ári áður hafði hann sagt það sama en seinna dregið í land.
„Nú er ég endanlega að hætta,“ sagði Brady í yfirlýsingu í upphafi febrúar á þessu ári þar sem hann sagðist ekki vilja breyta neinu við sinn feril.