Heilinn býr til inflúensueinkenni – DV

0
126

Slæm inflúensa getur lagt hvern sem er í bælið en það kemur kannski á óvart að í raun er það ekki sjálf sýkingin sem veldur sjúkdómseinkennunum. Það er heilinn sem veldur þeim. Nú hafa vísindamenn hugsanlega uppgötvað ástæðuna fyrir þessu eftir því sem segir í nýrri rannsókn sem hefur verið birt í vísindaritinu Nature að sögn Videnskab.dk.

Með tilraunum á músum uppgötvuðu þeir taugafrumur neðst í hálsinum, sem eru einna bestar í að uppgötva ef veira er til staðar, og senda skilaboð til heilans um að bregðast þurfi við.

Segja vísindamennirnir að það séu þessi skilaboð sem fái heilann til að loka fyrir orku, svengd og þorsta.

Fram að þessu vissu vísindamenn ekki hvernig heilinn uppgötvar að líkaminn sé sýktur. Ein kenning var að merki frá veirusýkingu gætu borist með blóði til heilans þar sem þau gætu átt samspil við heilafrumur.

En vísindamenn gátu afsannað þessa kenningu með því að fjarlægja þá viðtaka í músaheilum, sem áttu að taka við þessum merkjum. Mýsnar breyttu ekki atferli sínu við þetta og héldu sig áfram frá mat og drykk og hreyfðu sig minna.

Það hlaut því að vera eitthvað annað sem stýrði þessum viðbrögðum og það kom vísindamönnunum á sport taugafruma aftast í kokinu, sem tengja öndunarveginn við heilann.