-3 C
Grindavik
22. janúar, 2021

Helena Ólafs ræðir sögusagnir í kringum málefni Jóns Þórs: „Sorglegt mál“

Skyldulesning

Helena Ólafsdóttir einn færasti þjálfari í sögu kvennafótboltans á Íslandi segir málefni Jóns Þórs Haukssonar landsliðsþjálfara kvenna sorglegt. Þetta kom fram í máli hennar á Stöð2.

KSÍ hefur ákveðið að reka Jón Þór Hauksson úr starfi landsliðsþjálfara eftir atvikið í Ungverjalandi í síðustu viku. Atvik kom upp í fögnuði liðsins í Ungverjalandi í síðustu viku. Þjálfarinn, starfsfólk KSÍ og leikmenn voru þá að sletta úr klaufunum eftir að stelpurnar höfðu tryggt sig inn á Evrópumótið í Englandi.

Samkvæmt heimildum DV fóru hlutirnir í þeim gleðskap fljótt úr böndunum eftir að hver leikmaðurinn á fætur öðrum fékk yfir sig fúkyrði frá þjálfaranum. Starfsfólk KSÍ reyndi í nokkur skipti að koma Jóni Þóri upp á herbergi sitt á hótelinu en það gekk brösuglega.

„Í fyrsta lagi langar mig að segja að þetta er voðalega sorglegt mál, þegar liðið er komið í lokakeppni og við séum í rauninni að ræða þetta. Svona miðað við nýjustu fréttir í dag, að leikmenn ætli kannski ekki að gefa kost á sér í framhaldinu ef hann er við stjórn þá held ég að málið sé orðið svolítið þungt,“ sagði Helena í samtali við Ríkharð Óskar Guðnason á Stöð2.

Mikið af sögum ganga um hvað gekk á þetta örlagaríka kvöld í Ungverjalandi. Helena telur að mögulega hefði Jón Þór átt að segja starfinu lausu til að losna við sögusagnir. „Mögulega er það staðan. Það er erfitt að spá og spekúlera, við höfum heyrt ýmislegt og sögur breytast. Kannski er það þægilegra stundum – til að losna hreinlega við umtalið – að hætta bara sjálfur. Þetta er fyrst og fremst sorglegt en að sama skapi fróðlegt hvernig verður tekið á því.“

Helena veit ekki hvort Jón gæti unnið traust leikmanna til baka en segir að starfsmenn KSÍ sem voru með í ferðinni verði að meta það. „Ég hreinlega veit það ekki, þetta snýst svo mikið um traust og skilning á milli manna. Vonandi er hægt að græða einhver sár. Svo verður bara KSÍ að meta þetta. Það var starfsmaður á þeirra vegum með í ferðinni.“

Innlendar Fréttir