2.3 C
Grindavik
29. janúar, 2023

Hertar reglur takmarka uppbyggingu

Skyldulesning

Á lúxushótelinu Deplum eru aðeins 13 herbergi sem geta rúmað …

Á lúxushótelinu Deplum eru aðeins 13 herbergi sem geta rúmað á fjórða tuga gesta. Þar er því rúmgott og vel gert við gesti.

Fyrirtækið Eleven Experience á Íslandi, sem rekur náttúrutengda ferðaþjónustu á hótelinu Deplum í Fljótum, varar við afleiðingum hertra skilyrða við kaup og nýtingu fasteigna sem boðuð eru með frumvarpi forsætisráðherra sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Samþykkt þess myndi takmarka enn frekar eða koma í veg fyrir möguleika fyrirtækisins til að koma upp lúxusgistingu í öðrum landshlutum.

Í frumvarpinu felst meðal annars að þær breytingar sem gerðar voru á jarðalögum fyrir tveimur árum og takmarka heimildir erlendra aðila til að kaupa jarðir sem eru meira en 25 hektarar að stærð eru látnar gilda um fasteignir yfir ákveðinni stærð í þéttbýli.

Samtök ferðaþjónustunnar og Eleven Experience telja að vafi leiki á um að fyrirhugaðar breytingar samrýmist þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands, meðal annars EES-samningnum og eignarréttarákvæðum stjórnarskrár.

Laða að „fágætisferðamenn“

Eleven Experience rekur lúxushótelið Depla í Fljótum og á nokkrar jarðir og fasteignir í nágrenninu sem notaðar eru í tengslum við reksturinn. Hann grundvallast á því að laða til landsins „fágætisferðamenn“ sem greiða vel fyrir mikla þjónustu og upplifun. Haukur Bent Sigmarsson framkvæmdastjóri bendir á að fyrirtækið búi þegar við talsverðar hömlur eftir breytingar á jarðalögum sem samþykktar voru á Alþingi 2020. Með þeim breytingum sem nú eru áformaðar munu takmarkanir ekki aðeins ná til jarðakaupa heldur einnig fasteigna í þéttbýli. Þetta myndi koma í veg fyrir frekari uppbyggingu.

„Ef við vildum auka við starfsemi okkar með uppbyggingu þjónustu í öðrum landshlutum getum við ekki keypt jarðir sem eru stærri en 25 hektarar og það eru ekki margar hentugar jarðir sem eru svo litlar. Nú gætum við heldur ekki keypt okkur skrifstofuhúsnæði í Reykjavík eða fasteign til að opna lúxushótel í þéttbýli nema fá til þess sérstakt leyfi ráðherra,“ segir Haukur. Hann tekur fram að félagið eigi þegar jörð í Breiðdal en þar hafi ekki verið byggt upp.

Vantar erlenda fjárfestingu

Samtök ferðaþjónustunnar vekja athygli á því í sinni umsögn að ferðaþjónustan þurfi aukið fjármagn og að ferðaþjónustan sé góður kostur fyrir erlenda fjárfestingu.

Forsvarsmenn Eleven Experience sýna þeim sjónarmiðum skilning að stíga þurfi varlega til jarðar þegar kemur að réttmæti erlends eignarhalds á íslensku landi. „Við teljum að tími sé kominn til þess að horfa frekar á það hvernig landið er nýtt en hver á það. Við höfum sýnt það í verki að starfsemin skapar störf og tekjur í dreifbýli, dreifir ferðamönnum um landið og greiðir skatta til ríkis og sveitarfélaga,“ segir Haukur.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir