Heyrnartæki gætu dregið úr líkunum á elliglöpum – DV

0
99

Það að nota heyrnartæki getur dregið úr líkunum á elliglöpum. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem stóð yfir í áratug. Eftir því sem kemur fram í rannsókninni þá er hægt að draga úr fjölda tilfella af elliglöpum með því að taka snemma á heyrnartapi. Elliglöp eru eitt stærsta heilsufarsvandamál heimsins. Talið er að um miðja öldina muni fjöldi þeirra sem glíma við elliglöp hafa þrefaldast og vera 153 milljónir á heimsvísu. Sérfræðingar segja að þetta sé mikil ógn við lýðheilsu framtíðarinnar og heilbrigðis- og félagskerfið. The Guardian skýrir frá þessu.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að fólk, sem glímir við heyrnartap og notar ekki heyrnartæki, geti verið í meiri hættu á að þróa með sér elliglöp en þeir sem ekki glíma við heyrnartap. Með því að nota heyrnartæki er hægt að lækka áhættuna niður á sama stig og hjá fólki sem ekki glímir við heyrnartap.

Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu The Lancet public health journal.