9.3 C
Grindavik
25. september, 2022

Hitt og þetta um ekki neitt

Skyldulesning

Til að byrja með vil ég geta þess að ég hef ort tvö ljóð um ævina og einu sinni var nafnið mitt birt í Símaskránni. *** Ljóðið um kúna Ég ann þér borg með átján þúsund hús og eina rós í litlum stofuglugga. Ég ráfa um þig bæði frjáls og fús þótt finnist í þér varla nokkur tugga. Ég þekki engan unaðslegri reit og upphefð mikla hlaut á mínu flakki því ég var bara belja í minni sveit. Í borg ég varð að úrvals nautahakki. Þetta er fyrra ljóðið og hér kemur hitt. Flestum þykir dásamlegt lífsins götu að ganga, margir ansi langa. En enginn veit í rauninni hvert hann er að fara. Svo hverfur maður bara. *** Forðum daga var til kex sem kallað var röfl. *** Um daginn ákvað ég að safna undirskriftum gegn sölu á næpum. Mér finnast næpur nefnilega ekki góðar. Eftir mikla törn í símtölum og talsverða erfiðleika við heimsóknir til fólks í sóttkví og einangrun tókst mér með herkjum að safna einni undirskrift. Og nú er næsta skref í þessum aðgerðum að bruna niður á Austurvöll og afhenda landbúnaðarráðherra undirskriftina. *** Ólympíumetið í hnerra er einn metri og fimmtíu og fimm sentímetrar (sett í meðvindi). Þess vegna er alveg bráðnauðsynlegt að hafa í heiðri tveggja metra regluna. Ef maður hnerrar hins vegar í olnbogabótina á sér fer veiran ekki lengra en þangað og þá er ekki hægt að smita neinn nema sjálfan sig. *** Jesú gekk á vatni en ég fer allra minna ferða á bíl. *** Í gær horfði ég á þátt í sjónvarpinu og sagði þulan að hann héti Síðasta konungsríkið en á skjánum hjá mér stóð: NÆST SÍÐASTA KONUNGSRÍKIÐ. *** Mér fannst ég vera ferðaþjónustufyrirtæki áðan. Ég skrapp út með ruslið og var nærri farinn á hausinn. *** Ég komst að raun um það kl. 11:03 í morgun að ég er viðkvæmur hópur sem ber að vernda gegn kórónuveirum. Þetta var mér sagt á táknmáli. Nú er málum þannig háttað á heimilinu að hér búa þrír hópar fólks. Ég, kona og barn. Barnið er búið að fá fyrri bólusetningu þar sem það er með fimm undirliggjandi sjúkdóma. Konan býst ekki við að fá tilkynningu fyrr en í haust þótt samkvæmt þjóðskrá sé hún orðin löggilt gamalmenni. Konan tekur ekkert mark á þjóðskránni. Ég bíð hins vegar í ofvæni eftir því að fá kallið um bólusetningu. Þá get ég farið að gera allt sem mig langar til að gera: sitja heima í rólegheitunum og horfa á Netflix. *** Einu sinni var gamall maður sem keyrði yfir hausinn á sér að gamni sínu á Willys jeppa árgerð 1946. Sá gamli fann eiginlega ekkert fyrir þessu en ákvað samt að kæra sig til lögreglunnar af því að samkvæmt lögum er bannað að keyra yfir hausinn á fólki. Lögreglan tók gamla manninn fastan og flutti hann til yfirheyrslu þar sem hann þurfti að bera vitni gegn sjálfum sér og fannst lögreglunni vitnisburðurinn svo sannfærandi að sá gamli var umsvifalaust dæmdur í ævilangt fangelsi og sviptur ökuleyfinu. *** Stæling Sólroðin líta enn hin öldnu fjöll árstrauminn harða fögrum dali granda. Flúinn er dvergur, dáin hamratröll, dauft er í sveitum, hnípin þjóð í vanda. En lágum hlífir hulinn verndarkraftur, hólmanum, þar sem Gunnar sneri aftur. Jónas Hallgrímsson Á Alþingi stunda flestir framíköll og fæstir kjósa þar sitt mál að vanda. Þyrpast síðan út á Austurvöll ótal mörgum bjórum til að granda. En hér á landi hlífði enginn kjaftur háttvirtum mönnum er þeir sneru aftur. Benedikt Axelsson *** Ef ekkert gerist þá gerist ekki neitt. *** Sagt var frá því forðum daga að ungur maður hefði skellt bílhurð svo harkalega á móður sína að hún hefði skemmst. Af því tilefni lagði ég til að alþingi setti lög þess efnis að það væri bannað að skemma mömmu sína. Því var ekki sinnt. *** Limra um sósu Bernaise er bráðgóð sósa sem bragðaðist vel með Mósa. Er Brandur hann skaut hann breyttist í naut sem átvögl eru ennþá að hrósa. Þetta er Björgvin Halldórsson. Þetta er maðurinn sem var að hlusta á hann. Síamstvíburar Ég er að reyna að venja mig af því að bölva. Það gengur satt að segja alveg ljómandi helvíti vel. *** Ég fletti að gamni mínu í limrubók og fann þar þessa limru sem mér finnst skemmtileg: Snjallræði? Hún límbar þá litlu á sér. â€Å¾Látum nú sjá hvernig fer,“ hún sagði og hló. â€Å¾Nú sýnist mér þó að Sveinn lendi á föstu með mér.“ Guðni Kolbeinsson *** Flugan sem rak við (skáldsaga) Einu sinni var fluga sem bjó á fjóshaug á Möðrudal á Fjöllum. Hún átti þar gott líf þangað til hún rak við að gamni sínu. Því miður vildi þannig til að nýverið höfðu verið sett lög um bann við prumpi á fjóshaugum landsins. Var því flugan kærð og tekin föst af lögreglunni og sett í gjörgæslu og farbann og síðan var hún vistuð á Kvíabryggju. Þegar flugan hafði afplánað sinn dóm flaug hún í IKEA og þar er hún enn og ráfar um í leit að útgöngudyrum. *** Ein málsgrein … Við gamalmennin þurfum að endurnýja hér um bil allt þegar við verðum sjötug nema konurnar okkar og verðum stundum að standa í langri biðröð sem er ekki hollt fyrir mann eins og mig sem getur eiginlega í hvorugan fótinn stigið og kveið ég því þess vegna talsvert klukkan fjórtán mínútur yfir níu í morgun að endurnýja ökuskírteinið mitt hjá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu sem er til húsa að Hlíðasmára eitt í Kópavogi en þegar inn var komið var Lögreglustjóraembættið svo gjörsamlega biðraðalaust að mér fannst það nánast varða við lög og þegar ég hafði loksins ýtt á réttan takka á móttökutækinu sem var sá síðasti sem ég ýtti á tók á móti mér ungur og brosandi maður sem spurði hvað hann gæti gert fyrir mig rétt eins og hægt væri að biðja hann að skreppa út í búð að kaupa kók og prins póló en þegar ég hafði sagt honum farir mínar ekki sléttar að ég þyrfti að endurnýja ökuskírteini hætti ungi maðurinn að brosa og bað um læknisvottorð sem ég var sem betur fer með í vasanum og þegar mér hafði tekist að fiska það upp úr honum og reka það framan í unga manninn leit hann á mig með glaðlegum svip og sagði mér að borga hjá gjaldkera sem ég gerði með glöðu geði og gekk að svo búnu út frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu með vottorð um það að nú gæti ég keyrt bílinn minn næstu tvö árin vegna þess meðal annars að ég félli sjaldan í yfirlið og hefði góða sjón. Guði sé lof að enginn varð vitni að því þegar ég gekk á stóru rúðuna við hliðina á útidyrunum og missti meðvitund. *** Það þarf ekki að vera nema hálfviti til að átta sig á því að það er ekki hægt að bjarga þeim sem ekki er viðbjargandi. *** Ég settist út á pall áðan og ætlaði að hlusta á umferðarniðinn en var stöðugt truflaður af söng fugla. *** Nú gengur hér pest sem enginn vill smitast af. Hún sofnaði svefninum langa að síðustu Grímsstaða-Manga. Honum stórlega létti, Steina er hann frétti að andlát væru ekki að ganga. *** Sönn saga Ég keyrði tónlistarmanninn upp á LSH í magaspeglun í morgun og átti aðgerðin að taka klukkustund eða þar um bil og tókst mér að bíða í kuldanum í Kringlunni innan um sjálfsala og konuna í sjoppunni og manninn í upplýsingabúrinu þessa stund en fór að svo búnu og settist á biðstofu speglunardeildarinnar og þangað var stuttu seinna komið með gamlan mann sem settist skammt frá mér og sagði jæja og spurði svo hvort ég hefði beðið hérna lengi og þegar ég sagðist ekki hafa gert það teygði sá gamli sig í tímaritið Heima er bezt og bölvaði því að geta ekki lesið það sökum sjóndepru og spurði í annað sinn hvort ég hefði beðið lengi og fékk sama svar og áður og stuttu seinna kom konan sem nær í fólkið sem á að spegla og náði í gamla manninn og þegar þau voru á leiðinni út af biðstofunni spurði ég hana hvort tónlistarmaðurinn færi ekki að koma og þá sagði konan að hann kæmi ekki strax því að hann væri nýfarinn í aðgerðina og þegar ég spurði hvernig stæði á því sagði hún: – Það dregst allt hérna. – Ha, sagði þá sá gamli. – Drepst allt hérna? *** Um útvarp Stundum tölum við útvarpið saman á skynsamlegum nótum eins og vera ber þegar gáfaðir einstaklingar og menningarlega sinnaðir eiga í hlut. Útvarpið byrjar oftast umræðuna með því að segja mér að nú verði sagðar veðurfréttir frá Veðurstofu Íslands. Þá segi ég við útvarpið: Segðu nú eitthvað skemmtilegt til tilbreytingar með menningarlegu ívafi. (Það er nefnilega ekki hægt að þverfóta fyrir menningu þessa dagana í útvörpum og sjónvörpum og meira að segja blöðin reyna að vera menningarlega sinnuð með því að færa okkur fréttir af hestamannamótum og golfíþróttinni). Þá segir útvarpið oftast nær: Gufuskálar, vestnorðvestan 7, skyggni ágætt, hiti 9 stig. Þar með lýkur menningarlegu samræðunum okkar útvarpsins af því að ég slekk á því. Mér finnst það ekki samboðið okkur að tala um veðrið rétt eins og við séum venjulegt og illa gefið almúgafólk. Mannvitsbrekkur eins og við eigum að tala um heimsmálin og kartöfluuppskerubresti og vísitölu framfærslukostnaðar og fjórða orkupakkann, svo að eitthvað sé nefnt. Og ef útvarpið mitt ætlar að halda sig við þetta heygarðshornið verður löng bið á því að ég kveiki aftur á því, kannski geri ég það aldrei. *** Bæklingur frá borginni Fyrir nokkru fékk ég sendan bækling frá borginni þar sem mér var boðin alls konar þjónusta á lága verðinu því að nú átti loksins að gera vel við gamla fólkið. Ég hringdi strax í borgina og óskaði eftir því að hjá mér yrðu skúruð gólfin og fimm ára gamalt ryk þurrkað af húsgögnum. Sjálfur ætlaði ég hins vegar að sjá um að ýta á hnappinn á uppþvottavélinni. En ég hafði ekki fyrr sleppt orðinu um skúringarnar en babb kom í bátinn. Konan, sem ég hafði náð sambandi við, vildi sem sagt fá að vita hvað væri að mér. Það var greinilega ekki nóg að vera gamall til að njóta skúringarþjónustu borgarinnar. Ég sagði konunni sem satt var að ég væri alveg hundlatur og nennti eiginlega ekki að gera neitt nema ýta á hnappinn á þvottavélum. Þá sagði konan að það væri ekki sjúkdómur að vera latur og vildi ekkert fyrir mig gera. Ég fór þá með vísuna góðu um Geira – Lati Geiri á lækjarbakka lá þar til hann dó. Vildi hann ekki vatnið smakka, var hann þyrstur þó. Benti ég konunni síðan vinsamlegast á að maður sem dæi úr leti væri að mínu viti alvarlega veikur en konan sat við sinn keip og fékk ég enga þjónustu hjá borginni þrátt fyrir bæklinginn góða. Og nú sit ég hér og reyni af öllum lífs og sálar kröftum að upphugsa einhver veikindi sem ég get logið upp á mig því að þessa dagana þrái ég ekkert heitar en að vera andlegur eða líkamlegur aumingi. Að vísu aðeins þá stund sem það tekur að skúra gólf. *** Ekki eru allar ferðir til fjár, sagði bóndinn á leiðinni í fjósið. *** Nú vantar mig bara flugu, sagði ráðherrann og sveiflaði flugnaspaðanum ótt og títt í kring um sig. *** Nú fer vorið að koma á vængjum yfir sæinn, ég veit þetta af því að kuldinn er óðum að dvína. Og auk þess pantaði ég það með pósti frá Kína um daginn. Nú potað því verður brátt inn um lúguna mína. *** Davíð Oddsson er til vinstri á myndinni og einnig til hægri. Helgi Hrafn, helgist þitt nafn bæði hér í Breiðholtinu og niðri á þingi. Ég mun ætíð á þig trúa. Fyrirgefðu þeim sem ljúga. Frelsaðu mig frá öllu illu og einnig þau frá sinni villu, Kötu Jakobs, Sigurð Inga og Bjarna Ben. Amen *** Það fór óskaplega í taugarnar á Venusi frá Míló að hún var alltaf valin síðust þegar farið var í handboltaleik og þá sá hún mjög mikið eftir því hvað hún byrjaði ung að naga á sér neglurnar. *** 28 ára gamlar myndir Lífsreynslusaga: Um daginn pantaði ég blýant í pósti hjá The Pen Company á Englandi og gaf upp nafn og heimilisfang en þá vildi ekki betur til en svo að blýanturinn var sendur til Írlands með Hinni Konunglegu Póstþjónustu Stóra Bretlands. Á Írlandi fann Konunglega Póstþjónustan heimilisfang mitt án teljandi erfiðleika en svo illa vildi til, að hennar sögn, að ég var ekki heima. (Þetta fannst mér nú dálítið gott hjá HKPSB, að finna mann á Írlandi sem ekki var til). Var því skilinn eftir miði þar sem mér var vinsamlegast bent á að ef ég vildi fá blýantinn yrði ég að sækja hann sjálfur á næsta pósthús þar sem Hin Konunglega Póstþjónusta þjónustaði ekki þá sem væru aldrei heima hjá sér. Og voru nú góð ráð dýr. En þetta bjargaðist eins og flest annað og bíð ég nú spenntur eftir því að fá blýantinn sendan hingað. Enn spenntari bíð ég þó eftir því hvað íslenski pósturinn gerir til að angra mig þegar þeir koma höndum yfir blýantinn góða. < Blýanturinn komst eftir langa mæðu í mínar hendur og hefur svo sem ekki gert neitt af sér hingað til. *** Dónaskapur Andskotans djöfulsins dóninn daðraði mjög við klóninn. Gætirðu svo gefið mér tvo, og annan edrú, bað róninn. *** Hænan Segja má með nokkurri vissu að hænan sé í eðli sínu merkilegasti farfugl Íslands vegna þess að hún heldur sig hér allt árið og verpir eggjum í erg og gríð. Þegar ég var ungur piltur í sveit dáðist ég að vitsmunum hænunnar en ekki síður virðuleik hennar. Hún vappaði um fjóshauginn og át orma og fleira góðgæti og það var alveg greinilegt að hún var að hugsa um pólitík og landsins gagn og nauðsynjar. Aldrei datt henni samt í hug að fara lengra út í heim en á þennan fjóshaug og sýnir það best skynsemi hennar og staðfestu. Að vísu átti hún erfitt með að fljúga lengra en þrjá metra í einu en ef á þurfti að halda gat hún hlaupið þó nokkuð hratt. Ef gaggið í henni hefði ekki verið óskiljanlegt, fyrir utan svokallað eggjahljóð, hefði hún sómt sér vel á alþingi Íslendinga sem fjóshaugsmálaráðherra og er ég handviss um að í því embætti hefði hún vakið meiri athygli en forseti og utanríkisráðherra til samans þótt þeir séu á sífelldu flakki um hinn siðmenntaða heim að segja einhverja vitleysu sem enginn skilur. Mín vegna mættu þeir fylla hóp staðfugla og meira að segja mætti friða þá eins og spóann. En hænuna, þennan merkilega vísdómsfugl, dettur ekki nokkrum manni í hug að friða og í gær sá ég í búðinni svo margar steindauðar hænur uppblásnar af kranavatni og brauðfyllingu, sem biðu þess eins að vera étnar á svipuðum tíma og frelsarinn heldur upp á afmælið sitt, að ég var gráti nær. Að lokum Stutt ágrip af lífi mínu Í upphafi máls verð ég að gera þá játningu að það hefur aldrei verið níðst á mér nokkurs staðar fyrr né síðar, hvorki af mönnum né dýrum þótt einu sinni hafi munað litlu að kýr stangaði mig en það var gert í misgripum. Hún ætlaði að stanga frænda minn. Ég ólst upp á góðu heimili hjá ástríkum foreldrum sem gerðu sitt allra besta til að ég yrði að manni og það var ekki þeim að kenna að ég fékk ilsig ungur sem ég held að vísu að hafi verið logið upp á mig af manni sem vantaði salt í grautinn. Ég gekk með innlegg í skónum mínum þangað til ég týndi öðrum þeirra í ölæði. Þá henti ég hinu og hefur mér aldrei liðið betur í iljunum en þaðan í frá. Ég er gagnkynhneigður og biðst hér með innilega afsökunar á því. Vegferð mín um lífið og tilveruna hefur verið tíðindalítil en samt hef ég bæði séð holuna sem kölluð er Geysir í Haukadal og norðurljós og þegar ég var í sveit sá ég nokkrum sinnum draug og einu sinni sýslumanninn á Blönduósi. Störf mín til sjávar og sveita hafa ekki verið merkileg en þrisvar sinnum fór ég með gangnaseðilinn á næsta bæ og eitt sinn var mér falið það hlutverk að stunda fyrirstöðu fyrir neðan Kistu og var hún fólgin í því að sjá til þess að kindur færu ekki yfir brú og stóð ég við brúarendann og lamdi mig með bandspotta í hvert sinn sem ég sá kind til að stugga við henni. Þetta var dálítið sársaukafullt en ég fattaði það ekki fyrr en hlutverki mínu var lokið að það hefði verið nær að dangla í kindurnar. Mitt aðalstarf var kennsla og var ég ákveðinn í því á hverju vori að hætta þessari vitleysu og fara að bera út Moggann. En í þessu guðsvolaða starfi entist ég í 39 ár og hef ekki verið kærður enn fyrir nokkurn skapaðan hlut þótt einkennilegt megi virðast. Núna síðustu árin hef ég aðallega stundað það að horfa út um stofugluggann þótt þar sé ekkert spennandi að sjá lengur eftir að stóra grenitréð var fellt. Fyrir gluggagægjurnar fæ ég ekkert greitt en hins vegar er ég kominn á eftirlaun sem eru svo lág að ég get ekki lifað af þeim samkvæmt útreikningum hagspekinga og er því mjög sennilega dauður.


Fyrri fréttFréttir & Meme
Næsta fréttSamsæriskenning
spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir