3 C
Grindavik
1. mars, 2021

Hjálparstarfið sameinaði áhugamálin

Skyldulesning

Þóra Hrönn Sigurðardóttir og bakvarðarsveitin sem er með henni í …

Þóra Hrönn Sigurðardóttir og bakvarðarsveitin sem er með henni í búðinni við Vestmannabraut, þær Dagný, Þórunn, Þóra Hrönn, Kristjana, dóttirin Sunna og Elfa Ágústa.

mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Húsið við Vestmannabraut 37 í Vestmannaeyjum, sem í áratugi hýsti Magnúsarbakarí, hefur fengið andlitslyftingu og nýtt hlutverk. Í síðustu viku opnaði Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir þar verslunina Kubuneh og selur fatnað sem hún hefur fengið gefins, bæði notaðan og nýjan. Öll innkoma rennur til góðagerðarmála í Afríku.

Sameinaði tvö áhugamál

„Hugmyndin að búðinni kom eftir að við fjölskyldan tókum við rekstri heilsugæslu í Gambíu í Vestur-Afríku,“ segir Þóra Hrönn í samtali við fréttaritara. „Við þurfum peninga til að fjármagna heilsugæsluna svo ég sameinaði tvö áhugamál; að endurvinna og endurnýta og gera góðverk. Með því að bjóða upp á svona verslun er ég líka að gera öðrum kleift að endurnota föt frá öðrum og styrkja verkefnið okkar í leiðinni. Hver einasta króna fer í að hjálpa fólkinu í Kubuneh.“

Þóra Hrönn er fí orsvari fyrir góðgerðarfélagið Allir skipta máli. Hún fær öll föt gefins og hægt er að koma fatapokum til hennar í gegnum lúgu á húsinu eða koma með þau í búðina á afgreiðslutíma. „Um leið er fólk að gefa mér leyfi til að selja fötin því það er ekki öllum sama hvað um þau verður.“

Húsnæðið framlag fjölskyldunnar

Í búðinni er loppuhorn með fimm básum sem fólk getur leigt til að selja sín eigin föt. Fólk verðmerkir og gengur sjálft frá fötunum í básinn, en Þóra sér um söluna og tekur prósentur fyrir. Sá peningur fer beint í hjálparstarf.

Verslunin Kubuneh er björt og skemmtileg. Innréttingar einfaldar en smekklegar og hannaðar af Þóru Hrönn. „Allt hefur þetta kostað sitt en það kemur verkefninu ekkert við. Húsnæðið og aðstaðan er framlag fjölskyldunnar,“ segir hún.

Árið 2017 tók Þóra Hrönn þátt í verkefninu Sole Hope sem hún fór með inn í skólana í Vestmannaeyjum þannig að fleiri gætu tekið þátt í því. „Það verkefni snýst um að búa til skó úr notuðum gallabuxum, þeir eru svo sendir til barna í Úganda sem eru með flær í fótunum sem hafa étið sig inn á fæturna á þeim því þau eiga ekki skó,“ segir Þóra þegar hún útskýrir aðstæður fólks í fjarlægu landi.

Í nóvember 2018 fór fjölskyldan í fyrsta skipti til Gambíu, sem er örlítil ræma inni í Senegal. Með í för voru þau Gústaf Baldvinsson og Anna Gunnlaugsdóttir sem þá voru byrjuð að hjálpa til í Kubuneh.

Innlendar Fréttir