8 C
Grindavik
23. apríl, 2021

Hjúkrunarfræðingur lýsir 27 daga einangrun -„Heimilið fer algjörlega á hliðina“

Skyldulesning

Hjúkrunarfræðingurinn og einkaþjálfarinn Ásthildur Björnsdóttir losnaði nýverið úr 27 daga einangrun eftir að hafa smitast við vinnu sína á Reykjalundi. Hún varð ekki mikið lasin en einangrunin tók svo sannarlega á. Feðginin „frammi“ töfruðu daglega fram listaverk til að gleðja sína konu.

„Ég starfa sem hjúkrunarfræðingur á Reykjalundi og smitaðist í vinnunni,“ segir Ásthildur aðspurð út í aðdraganda lengsta mánaðar lífs síns. „Fór strax í sóttkví eftir að vinnu lauk á sunnudagskvöldinu og fyrstu einkenni komu fram á miðvikudeginum. Fór í skimun á fimmtudeginum og fékk COVID-símtalið seinnipartinn þarna á fimmtudeginum þar sem staðfest var að ég væri smituð – en ég átti alveg von á því þar sem ég hafði verið mjög útsett þarna nokkrum dögum fyrr í vinnunni. Fyrst í stað átti ég að vera í tvær vikur í einangrun sem svo var framlengt þar sem ég var enn með einkenni endaði að lokum í 27 dögum í einangrun.“

Fjölskyldan leitaði skjóls

„Heimilið fer algjörlega á hliðina þegar einn á heimilinu er smitaður en hinir ekki. Þetta þýddi einnig að allir aðrir fóru í sóttkví með tilheyrandi reglum og kvöðum tengdum því. Það sem bjargaði því að ég fékk að vera heima er að við erum með gestasalerni sem ég ein var með aðgang að. Þegar ég þurfti að komast á snyrtinguna krafðist það einmitt skipulags og undirbúning áður en ég fór út úr herberginu sem byrjaði á að haldinn var örfundur á FaceTime þar sem ég lét fjölskyldumeðlimi vita að ég væri væntanleg fram og þau settu upp grímur og leituðu skjóls,“ segir Ásthildur sem er með eindæmum jákvæð.

Daglegar baðferðir voru hins vegar ekki í boði þar sem engin sturta er inni á gestasalerninu. „Úr varð að þau notuðu sturtuna en ég fékk aðgang að baðkarinu en það þýddi mikil þrif þegar ég fór í baðið því að það varð að sótthreinsa allt herbergið, bæði af mér og svo þurftu þau að koma inn og spritta aftur yfir alla snertifleti.“

Ásthildur vandaði til verka og þekkir í gegnum starf sitt hve mikilvægt er að gæta ýtrustu varkárni við smitvarnir. „Svona aðstæður krefjast mikilla smitvarna og hreinlætis upp á 10 frá öllum á heimilinu til að forðast frekara smit, sem við náðum að gera en þau sluppu við smit.“

Fékk lítinn hita

Ásthildur segist ekki hafa orðið mikið veik og fékk til að mynda aðeins 37,9 stiga hita í nokkrar klukkustundir daginn sem fyrstu einkenni komu fram en alla hina dagana var hún hitalaus. „Ég fékk samt sem áður ýmis einkenni sem komu fram á mismunandi tímabilum í þessu ferli. Einkenni eins og til dæmis hálssærindi, hósta, kvefeinkenni eins og nefrennsli í tíma og ótíma, hellu fyrir eyrun, misslæman höfuðverk, ógleði, svima, mikinn slappleika og þreytu, mæði við minnstu áreynslu, augnsýkingu, niðurgang, mikinn hroll, beinverki og húðverki, þrátt fyrir að vera ekki með neinn hita,“ en venjulega eru eymsli í húð fylgikvilli hita.

„Svo brenglaðist bragð- og lyktarskyn þannig að fyrst fann ég eingöngu hryllilega vont bragð af öllu og fann bara megna bensínlykt. Það breyttist svo sem betur fer yfir í að finna ekkert bragð né lykt sem er skárra en að finna ógeðslyktina og svo fór það yfir í og er enn, að ég finn smá lykt og bragð en ekki eins og var áður,“ segir Ásthildur sem er mikil smekkkona á mat og sannkölluð listakona í eldhúsinu.

Einmanaleikinn

„Það sem var erfiðast í öllu þessu ferli voru ekki veikindin sjálf heldur miklu frekar þessi langa einmanalega einangrun. Að vera innilokaður í litlu herbergi og stara á veggina og mega ekki koma nálægt fólkinu sínu reyndi alveg töluvert á, bæði mig og eins á hina fjölskyldumeðlimina. Fyrir þá að vita af sínum nánasta þarna innilokuðum og mega ekki koma nálægt honum. Einnig hafði ég alltaf áhyggjur yfir því að stofna þeim í hættu með því að smita þau í hvert sinn sem ég þurfti á snyrtinguna og eins þegar dyrnar voru opnaðar þegar ég fékk matarsendingarnar.“

Ásthildur segist hafa fundið sterkt fyrir því hvað litlu hversdagslegu hlutirnir gefa manni mikið. Líkt og að sitja til borðs með fjölskyldunni, fara sjálf fram og fá sér að borða þegar maður vill. „Í þessum aðstæðum verður fólk algjörlega upp á aðra komið. Litlir hlutir eins og að fara út fyrir hússins dyr í stuttan göngutúr eru ekki í boði. Heimur manns, lífsgæðin og frjálsræðið verður innsiglað inni í því rými sem einangrunin á sér stað í.“

Dagdraumar um fjöll

Ásthildur reyndi að láta dagana líða en inniveran reyndist þessari orkumiklu íþróttakonu erfið. Ástríður starfaði um árabil sem einkaþjálfari og er sannarlega ekki sú tegund sem getur sleppt hreyfingu auðveldlega. „Ég hafði hundana mína tvo mér til mikillar ánægju, fór langleiðina með að klára Netflix, öll símtölin styttu svo sannarlega stundirnar, þegar ég komst í bað þá reyndi ég að vera eins lengi í því og ég gat til að láta daginn líða. Ég gat ekkert lesið en þar sem ég elska að fara í fjallgöngur úti í náttúrunni að þá fannst mér dásamlega skemmtilegt að skoða flottar myndir af landslagi, fjöllum og náttúru á Instagram og Facebook og lét mig dreyma um að komast á fjöll og fékk hugmyndir að skemmtilegum fjallgöngum.“

Þörfin fyrir hreyfingu fékk litla sem enga útrás.

„Það reyndi líka mjög mikið á hversu litla hreyfingu ég fékk allan þennan tíma. En ég er að öllu jöfnu mjög líkamlega virk en ég stunda mikla hreyfingu og það skemmtilegasta sem ég geri er að fara í fjallgöngur. Þennan tíma var eina hreyfingin sem ég fékk þegar farið var á snyrtinguna og svo reyndi ég að fara út í garð einu sinni á dag og gekk þar fram og til baka í smástund.“

Feðginin Birgir Gunnarsson eiginmaður Ásthildar og dóttir þeirra Ásta Rakel hugsuðu sannarlega vel um sína konu og föndruðu dýrindis máltíðir stundum oft á dag. Ásthildur deildi myndum af matarbökkunum á samfélagsmiðlum á meðan á einangruninni stóð og biðu vinir hennar margir spenntir eftir mynd dagsins.

„Hápunktar allra daganna voru þegar ég fékk matarbakkann inn í herbergið nokkrum sinnum á dag. Þar sem bragðskynið var annaðhvort ekkert eða brenglað þá skipti öllu máli að maturinn væri fallega framreiddur og nógu litríkur fyrir augað. Þau sáu fljótt hvað máltíðirnar vöktu mikla lukku hjá mér og þegar bragð- og lyktarskynið var ekki til staðar þá skipti svo sannarlega miklu máli hvernig maturinn leit út. Þegar bragðskynið var farið þá fékk ég æði fyrir því að borða Lay’s saltaðar kartöfluflögur, ekki að ég fyndi neitt bragð – heldur var áferðin svona líka skemmtileg að narta í.“

Bragðskyn og lyktarskyn getur breyst mjög samfara því að fá veiruna og er eitt helstu einkenna hennar. „Ég virðist þola sterkan mat betur núna þar sem bragðskynið er ekki alveg komið aftur til baka. Finn stundum lykt og stundum ekki – eins og lyktarskynið sé mjög flöktandi. Eins og staðan er í dag þá hef ég heldur ekki lyst á banana og finnst hann ógeðslegur,“ segir Ásthildur sem var alla jafna mikil bananaunnandi og heldur í þá von að bragðlaukarnir sættist við ávöxtinn fyrr en seinna.

Ferfætti vinur Ásthildar stytti henni stundir.
Matardiskarnir voru sannarlega girnilegir.

Hemja keppnisskapið

Ásthildur losnaði úr einangrun fyrir rúmri viku og er frelsinu fegin. „Ég er svo hamingjusöm yfir að þetta sé yfirstaðið og að ég sé búin að fá frelsið aftur! Er þó enn með hósta og smá kvef ásamt því að bragð- og lyktarskyn er ekki alveg komið aftur til baka. Þrekið er minna en fyrir smit og nú tekur við að koma sér aftur í fjallgönguform en ég er búin að fá mörg góð ráð frá öðrum póst-kóvidum og allir eru þeir sammála um að góðir hlutir gerast víst hægt. Nú reynir á að hemja keppnisskapið og fara hægt af stað.“

Aðspurð um ráðleggingar til þeirra sem gætu átt eftir að lenda í hennar sporum svarar hjúkrunarfræðingurinn: „Ég hvet fólk til að nota tæknina og tala við fólkið sitt. Ég notaði FaceTime mjög mikið til að sjá fólk á skjánum. Mæli einnig með því að búa sér til rútínu í þessum einmanalegu aðstæðum. Þetta tímabil var eins og að vera stödd í myndinni Groundhog day – allir dagar voru eins. Rútínan sem fór í gang var að fara á fætur, skipta um föt og búa um rúmið – þrátt fyrir að eyða svo öllum deginum í því. Þá sáu fjölskyldumeðlimir til þess að ég fékk reglulegar máltíðir sem hjálpaði svo sannarlega til þess að láta dagana líða.

Samkvæmt COVID-göngudeildinni var það þrennt sem ég átti að fókusera á og það var að borða, drekka nóg og gera öndunaræfingar sem ég gerði samviskusamlega og reglulega yfir daginn. Ef fólk á gæludýr að hafa þau hjá sér – ég spurði sérstaklega um það þegar þetta byrjaði hvort ég mætti hafa hundana mína tvo hjá mér sem var í lagi og þeir veittu mér mikinn félagsskap. Þar sem ég hef aðgang að lokuðum garði fékk ég leyfi til þess að fara þangað út í smástund og ég reyndi að komast út daglega þótt í stuttan tíma væri.“

Vinir, vandamenn og yfirmenn geta líka haft jákvæð áhrif á líðan fólks í einangrun. „Það að hafa samband við fólk í einangrun, hvort sem er í síma eða í skilaboðum. Það gefur ótrúlega mikið að fá smá tengingu við raunheima og að þú vitir og finnir að það sé hugsað til þín. Þá skiptir einnig mjög miklu máli að finna fyrir stuðningi frá vinnuveitendum í aðstæðum sem þessum.“

Ásthildur segir bestu fjárfestingu einangrunarinnar hafa verið að kaupa snertilausan hitamæli þar sem mæla þurfi hitann tvisvar á dag. „Einnig leyfði ég mér aldrei að hugsa um hversu lengi ég væri búin að vera inni í herberginu heldur hugsaði ég frekar að með hverjum deginum sem liði yrði styttra í það að ég kæmist aftur út,“ segir Ásthildur sem brosir nú hringinn en fer sér hægt enda líkaminn enn að jafna sig.

Ásthildur mikill göngugarpur. Mynd: Aðsend

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir