-1 C
Grindavik
27. janúar, 2021

Hljóp á eftir manni sem reyndi að brjótast inn

Skyldulesning

Íbúi í hverfi 108 sagði mann hafa reynt að brjótast inn um glugga hjá sér. Tilkynning þess efnis barst um fjögurleytið í nótt. Maðurinn hljóp á brott og húsráðandi á eftir honum en honum tókst ekki að ná manninum. Gerandi hafði haft í hótunum við húsráðanda. Hinn grunaði fannst ekki þrátt fyrir leit.

Á tíunda tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um mann sem skemmdi hraðbanka í miðbæ Reykjavíkur. Lögregla handtók hann skammt frá vettvangi. Hún hafði haft afskipti af manninum fyrr um daginn. Maðurinn var vistaður í fangaklefa sökum ástands.

Lögreglu barst aðstoðarbeiðni frá starfsmönnum í verslun í vesturbæ Reykjavíkur á áttunda tímanum í gærkvöldi. Þar var ölvaður og æstur maður sem að hafði veist að starfsmönnum. Maðurinn var handtekinn þegar að lögregla kom á vettvang. Maðurinn hafði einnig stolið vörum úr versluninni. Hann var vistaður í fangaklefa, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Á fimmta tímanum í nótt var tilkynnt um innbrot í verslun í miðbæ Reykjavíkur. Ekki er vitað meira um málið að svo stöddu.

Lögregla og sjúkrabifreið voru send á vettvang um hálfþrjúleytið í nótt vegna slyss í miðbæ þar sem aðili féll af rafmagnshlaupahjóli.

Um hálfníuleytið í gærkvöldi var tilkynnt um rúðubrot í grunnskóla í Grafarvogi. Tilkynnandi grunaði hóp ungmenna í grennd við skólann. Lögregla náði ekki tali á ungmennunum.

Ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna um hálfþrjúleytið í nótt. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð í sýnatöku. Ökumaður er á átjánda aldursári og því var haft samband við foreldra og tilkynning send til barnaverndar.

Innlendar Fréttir