Hlut­a­bréf­a­mark­að­ur­inn van­met­inn um 20 prós­ent að með­al­tal­i – Innherji

0
90

Helgi Vífill Júlíusson skrifar 4. maí 2023 14:00

Úrvalsvísitalan ætti að ná fyrri hæðum – um 3.400 stig – við áramót ef þróun hlutabréfamarkaðarins verður með svipuðum hætti og í kringum síðustu aldamót. Miðað við reynsluna þá tók það vísitöluna tvö og hálft ár að ná fyrri hæðum eftir umtalsverðar lækkanir. Að meðaltali er markaðurinn vanmetinn um 20 prósent, miðað við hlutabréfagreiningar Jakobsson Capital.

Árið 2001 var 9,4 prósenta verðbólga. Seðlabanki Íslands setti met í hækkun stýrivaxta, hann hækkaði stýrivexti um eitt prósentustig „í hverri vaxtahækkuninni á fætur annarri.“ Fasteignaverð hafði árinu áður hækkað um tæplega 18 prósent að raunvirði þegar mest lét. Atvinnuleysi var í lágmarki. Áhættusækni hafði einkennt hlutabréfamarkað og met í skráningu nýrra fyrirtækja. Úrvalsvísitalan hafði lækkað um 27 prósent frá því hún náði hæstu hæðum 18 mánuðum áður. Upplýsinga- og líftæknifyrirtæki höfðu notið mikilla vinsælda á markaði, að því er segir í hlutabréfayfirliti Jakobsson Capital sem Innherji hefur undir höndum.

Í yfirlitinu er varpað ljósi á muninn á milli tímabila. Stýrivextir voru tólf prósent í lok árs 2001 en eru nú 7,5 prósent. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 24 prósent frá því hún náði hæstu hæðum í um 3.400 stigum, verðbólgan er örlítið hærri og fasteignaverð hækkaði um tæplega 17 prósent að raunvirði þegar að mest var.

Hlutabréfamarkaður er oftast á undan hagsveiflunni en fasteignamarkaður á eftir. „Eftirmálar þessara umbrotatíma árin 2000 til 2003 var að það kom skammvinn en skörp raunverðslækkun á fasteignamarkaði. Á sama tíma og fasteignamarkaður lækkaði var byrjuð hægfara hækkun á hlutabréfamarkaði. Hlutabréfamarkaður er oftast á undan hagsveiflunni en fasteignamarkaður á eftir. Ef sagan endurtekur sig þá tók það Úrvalsvísitöluna tæplega 2,5 ár að ná fyrri gildum. Ef sagan er góður metill á framtíðina verður Úrvalsvísitalan komin í 3.400 stig um áramótin 2023/24,“ segir í hlutabréfayfirliti Jakobsson Capital.

Heimild: Jakobsson Capital Það hefur verið „fátt um fína drætti á hlutabréfamarkaði“ síðastliðna tólf mánuði að því er greinandi bendir á. Að meðaltali hefur ávöxtun að teknu tillit til arðgreiðsla verið neikvæð um 6,7 prósent en 9,0 prósent ef ekki er tekið tillit til arðgreiðslna, samkvæmt Jakobsson Capital.

Aðeins Ölgerðin hefur skilað góðri ávöxtun eða rúmlega 40 prósent. Ávöxtun Síldarvinnslunnar og Sýnar hefur verið „viðunandi“. Nokkur félög hafa verið réttu megin við núllið. Play, Kvika og fasteignafélögin hafa skilað lökustu ávöxtuninni.

„Af atvinnugreinum þá eru það helst flutningafyrirtækin og sjávarútvegurinn sem hafa komið þokkalega út. Fasteignafélögin og smásölufyrirtækin hafa ekki verið vinsæl og fjármálafyrirtækin átt betri daga. Að meðaltali er markaðurinn vanmetinn um 20 prósent og er það með allra mesta móti,“ segir í yfirlitinu.

Heimild: Jakobsson Capital Greinandi Jakobsson Capital segir að það komi ef til vill ekki á óvart að þau félög sem hafi átt hvað „lakasta mótið á hlutabréfamarkaði“ séu meðal vanmetnustu félaga. „Fasteignafélögin hafa sjaldan verið vinsæl á hlutabréfamarkaðnum og eru þau áberandi vanmetnustu félögin á markaði. Töluverð hagnaðaraukning hefur verið hjá félögunum. Á sama tíma hafa þau fallið eins og steinn á markaði. Fasteignafélögin hafa verðtryggt greiðsluflæði.“

Fram kemur í yfirlitinu að hlutabréfaverði Icelandair gangi illa að yfirstíga sálrænan þröskuld á markaðsgengi sem sé yfir 2,0 jafnvel þótt útlit sé fyrir besta rekstrarár Icelandair síðan 2016. 

„Bankarnir Arion og Kvika heyja svo blóðuga baráttu um að fylgja á hæla fasteignafélaganna og Icelandair. Það kemur ekki á óvart að fjármálafyrirtækin og fasteignafélögin komi vel út í þessum samanburði en félögin eru í eðli sínu arðgreiðslufélög sem koma vel út í verðmati.“