5 C
Grindavik
5. mars, 2021

Hlýnar ört í veðri

Skyldulesning

Það verður hæg suðaustlæg átt á landinu í dag og dálítil slydda eða snjókoma með köflum en spáð er rigningu við suðurströndina og hita í kringum frostmark að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Þá verður hægara veður og bjartviðri austan til en talsvert frost.

Suður af Hvarfi er síðan vaxandi lægð sem nálgast landið undir kvöld. Þá fer að hvessa úr suðaustri en á morgun þokast lægðin til austurs sunnan við landið. Gengur þá á með allhvassri eða hvassri norðaustanátt og fer að snjóa fyrir austan.

Á morgun hlýnar ört í veðri og úrkoman breytist í rigningu eða slyddu um kvöldið en áfram verður úrkomulítið á vesturhelmingi landsins.

Dagana þar á eftir er spáð austlægum áttum með fremur hlýju veðri og vætu á víð og dreif, einkum þó suðaustanlands.

Veðurhorfur á landinu:

Suðaustlæg átt, 3-10 m/s og dálítil slydda eða snjókoma með köflum, rigning við S-ströndina, en hægara og yfirleitt bjartviðri eystra. Suðaustan 8-15 og bætir í úrkomu SV-til í kvöld. Frost yfirleitt 0 til 12 stig, kaldast í innsveitum NA-lands, en frostlaust við S-ströndina.

Gengur í norðaustan 10-18 m/s á morgun, hvassast við S-ströndina og fer að snjóa A-lands, en rigning eða slydda þar um kvöldið og hlýnar í veðri. Skýjað en úrkomulítið í öðrum landshlutum.

Á miðvikudag:

Austan og síðar norðaustan 8-15 m/s og slydda eða snjókoma með köflum og frost 0 til 6 stig, en rigning við S- og A-ströndina seinni partinn með hita 1 til 5 stig.

Á fimmtudag:

Austlæg átt, 10-15 m/s og rigning eða slydda með köflum, en lengst af hvassari norðaustanátt og snjókoma NV-til. Hiti 0 til 7 stig, hlýjast syðst.

Á föstudag, laugardag, sunnudag og mánudag:

Ákveðin austlæg átt og rigning með köflum SA-til, en dálitlar skúrir eða slydduél í öðrum landshlutum. Hiti 2 til 7 stig.

Innlendar Fréttir