7 C
Grindavik
26. febrúar, 2021

„Hlýtt í hjartanu“ í áheitahlaupi í nótt

Skyldulesning

Stjörnubjart var í stillunni í nótt og því tilvalið veður …

Stjörnubjart var í stillunni í nótt og því tilvalið veður fyrir áheitahlaup.

Ljósmynd/Aðsend

Fjallahlaupahópur Ferðafélags Íslands lætur frostaveðrið ekki á sig fá og hefur frá því klukkan fjögur í gær hlaupið hring eftir hring í kringum Reynisvatn til styrktar sumarbúðum lamaðra og fatlaðra í Reykjadal. Hlaupið stendur yfir til klukkan fjögur í dag og vonast Kjartan Long, forsprakki hlaupahópsins, til þess að um 2-300 þúsund krónur hafi safnast í lok dags.

En Kjartan, er ykkur ekki kalt?

„Nei, okkur er svo hlýtt í hjartanu,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Til að gæta að sóttvörnum hleypur alltaf bara einn hlaupari í einu, þannig verður engin hópamyndun.

„Við erum 28 í hópnum og þetta er sólarhringshlaup þannig að allir fá svona einn klukkutíma hver. Svo eru á meðal okkar hjón sem hlaupa þá saman.“

Tveir hlauparanna, Einar Rafn Viðarsson og María Kristín Gröndal, við …

Tveir hlauparanna, Einar Rafn Viðarsson og María Kristín Gröndal, við Reynisvatn. Glöggir sjá Kærleikskúluna hangandi á jólatrénu, en hún er seld til styrktar sumarbúðanna í Reykjadal.

Ljósmynd/Aðsend

Láta kuldann ekki stoppa sig

Kjartan segir að lítið mál sé að hlaupa þrátt fyrir frostið sem nú ríkir. Í nótt hafi náttúran skartað sínu fegursta fyrir allra hörðustu hlauparana. 

„Það var dúnalogn og stjörnubjart hérna í nótt, alveg ótrúlega fallegt. Svo erum við með lítið eldstæði og við kveiktum á kertum þannig að þetta er alveg rosalega kósí hjá okkur.“

Þegar hlaupið hófst höfðu safnast um 100 þúsund krónur.

„Ég vona að þetta verði komið upp í svona 2-300 þúsund í lok dags. Það væri alveg afskaplega flott. Það færi þá í að kaupa húsgögn og annað nytsamlegt fyrir sumarbúðirnar.“

Kjartan er forsprakki hlaupahópsins.

Kjartan er forsprakki hlaupahópsins.

Ljósmynd/Aðsend

Enn opið fyrir áheit

Öllum er frjálst að heita á hlaupagarpana sem verða að til klukkan fjögur í dag.

Kennitala: 630269-0249

Reikningsnúmer 0526-04-250210

Innlendar Fréttir