Hollendingar hyggjast leyfa dánaraðstoð fyrir börn – DV

0
150

Hollendingar hyggjast víkka löggjöf sína um dánaraðstoð og heimila læknum að aðstoða börn, sem þjást af banvænum sjúkdómum, á aldrinum 1 til 12 ára við að deyja. The Guardian segir að reglurnar muni ná til 5 til 10 barna á ári, barna sem þjást óbærilega vegna sjúkdóma og eiga sér enga von um lækningu og líknandi meðferð veitir þeim ekki líkn.

„Að enda lífið er eini skynsamlegi kosturinn gegn óbærilegum og vonlausum þjáningum barnsins,“ segir í yfirlýsingu hollensku ríkisstjórnarinnar þar sem hún kynnti hugmyndir sínar.

Hollendingar voru fyrstir þjóða til að heimila dánaraðstoð en það gerðu þeir 2002. Ströng skilyrði eru fyrir því að veita megi slíka aðstoð. Öll mál verða að fara fyrir sérstakar læknanefndir.

Samkvæmt núverandi lögum má veita börnum, yngri en eins árs, sem þjást af banvænum sjúkdómi dánaraðstoð og það sama gildir fyrir alla 12 ára og eldri.

Samkvæmt opinberum gögnum fékk eitt ungmenni á aldrinum 12 til 16 ára dánaraðstoð á síðasta ári.

Belgar hafa leyft dánaraðstoð við alla aldurshópa síðan 2014.