Hollenska þýðingin tekin úr sölu – Vísir

0
16

Ný bók breska rithöfundarins Omid Scobie um konungsfjölskylduna hefur verið fjarlægð úr hillum bókaverslanna í Hollandi vegna fregna af því að í bókinni leynist nafn manneskjunnar sem sögð er hafa lýst áhyggjum af húðlit sonar þeirra Meghan og Harry.

Í umfjöllun Guardian um málið kemur fram að Xander, hollenskur útgefandi bókarinnar, sem ber heitið Endgame, hafi ákveðið að stöðva sölu bókarinnar „tímabundið“ vegna „villu“ sem fundist hafi í bókinni. Omid Scobie skrifar um konungsfjölskylduna í bókinni en hann hefur áður skrifað bókina Finding Freedom um þau Harry og Meghan.

Forsaga málsins er sú að í sögufrægu sjónvarpsviðtali við Opruh Winfrey árið 2021 lýsti Meghan Markle því að meðlimur í konungsfjölskyldunni hefði viðrað áhyggjur sínur af því hvaða húðlit ófæddur sonur hennar yrði með. Áður hefur Oprah sjálf sagt opinberlega að ekki hafi verið um að ræða Elísabetu Bretlandsdrottningu né Filippus.

Í frétt Guardian kemur fram að Omid Scobie, sem ítrekað hefur skrifað bækur um konungsfjölskylduna, hafi ekki birt nafnið í bók sinni. Þar kemur hins vegar fram að ekki hafi einungis einn meðlimur fjölskyldunnar viðrað þessar áhyggjur, heldur hafi þeir verið tveir. Einhverra hluta vegna virðast nöfn þeirra þó hafa slæðst í hollenska þýðingu af bókinni.

„Bókin hefur verið þýdd á nokkrum tungumálum og því miður tala ég ekki hollensku. En ef það eru þýðingarvillur þá mun útgefandi leiðrétta þær. Ég skrifaði ensku útgáfuna. Það er engin útgáfa frá mér þar sem þessi nöfn eru birt,“ hefur miðillinn eftir Scobie.

Höfundurinn skrifar í bók sinni að vegna breskra laga megi hann ekki nafngreina einstaklingana í bók sinni. Mikinn styr stóð um málið árið 2021 eftir opinberanir Meghan Markle. Vilhjálmur Bretaprins sagði í samtali við fjölmiðla í kjölfarið að konungsfjölskyldan væri alls ekki rasísk.