-2 C
Grindavik
26. janúar, 2021

Hönnu fannst gott að ræða við Katrínu forsætisráðherra – „Mér finnst skrýtið að ekki hafi verið rýmt fyrr“

Skyldulesning

„Katrín spjallaði við okkur og mér fannst bara gott að ræða við hana. Mér finnst skrýtið að ekki hafi verið rýmt fyrr miðað við hvað búið var að rigna mikið og ég nefndi það við hana. Ég er ekki að segja það í reiði, ég er bara að upplýsa og segja að þetta er eitthvað sem þarf að skoða betur og læra af,“ segir Hanna Christel Sigurkarlsdóttir, íbúi á Seyðisfirði, en hún getur ekki flutt inn í hús sitt við Fossgötu eftir náttúruhamfarirnar undanfarið og veit ekki hvort og hvenær hún getur það aftur.

Hús Hönnu og eigimanns hennar, Elvars Más Kjartanssonar, skemmdist ekki í skriðuföllunum sem riðið hafa yfir Seyðisfjörð, skriðan fór beint fyrir neðan húsið. „Ég hef ekki fengið nein svör en ég geri ekki ráð fyrir að við megum vera neitt þarna og ég veit ekki hvort ég þori það en þetta er við hliðina á Búðafossi,“ segir Hanna. Fjölskyldan hefur undanfarið dvalist á öðru heimili á Seyðisfirði en þau eru núna á leiðinni til Reykjavíkur og munu dveljast þar yfir jólin. Hanna og Elvar eru úr Reykjavík en hafa haft fasta búsetu á Seyðisfirði síðan árið 2012. Elvar er trésmiður og starfar bæði sjálfstætt en hefur einnig tekið mikinn þátt í uppbyggingu Tækniminjasafnsins á Seyðisfirði. Hanna er forstöðukona í Skaftfelli – Listamiðstöð Austurlands. Hanna og Elvar eiga tvö börn.

Hanna er ánægð með heimsókn nokkurra ráðherra til Seyðisfjarðar í dag. Hún veit ekkert um málavöxtu varðandi meintar hótanir eins íbúa í garð forsætisráðherra. Sjálf segist hún hafa átt góðar samræður við Katrínu Jakobsdóttur. „Ég hitti hana í góðu tómi. Hún var bara fín og þau öll. Þau eru hingað komin til að hlusta á okkur og skilja betur hvað við erum að ganga í gegnum. En svo veit maður ekki hvað gerist næst. Það er allt í svo mikilli óvissu.“

Aðspurð hvort Hönnu finnist gagnrýni á yfirvöld vegna meintra ónógra ofanflóðavarna vera hávær segir hún: „Ég held að það sé ekki alveg marktækt núna því fólk er í sjokki. Sumir bregðast við í reiði, það er svo misjafnt hvernig fólk bregst við. Það skiptir máli að það verði hlustað á okkur og við fáum upplýsingar, ég nefndi það líka við Katrínu og þau öll, að það væri mjög mikilvægt að við fengjum að hitta sérfræðinga og vita aðdragandann, hver staðan er núna og hvað er hægt að gera. Eins fljótt og hægt er, en ég veit að þetta tekur tíma.“

Hanna virkar mjög yfirveguð og blaðamaður spyr hana hvort það sé í hennar eðli að bregðast við áföllum af rósemi. „Ég veit það ekki. Ég var alveg í losti hérna á föstudag og er bara búin að vera upp og niður. En mér finnst ekki gott að vera reið, ég fer ekki þangað, en sumir ráða ekki við það.“

Varðandi búsetu til framtíðar þá segir Hanna framtíðina óráðna en ljóst sé að þau vilji ekki flytja frá Seyðisfirði á næstunni. „Við viljum vera hérna og takast á við þetta. Ég er forstöðukona í Skaftfelli og hef skyldum að gegna þar og börnin okkar þurfa að vera í öryggi. Ef við finnum húsnæði þá verðum við pottþétt hér eitthvað áfram en við vitum ekki hvað gerist, hvort húsið okkar verður byggilegt aftur. Við erum líka að vinna úr sjokkinu og það mun taka einhvern tíma.“

Hanna segir að taka þurfi lífið eitt skref í einu núna og næstu skref fjölskyldunnar eru að komast til Reykjavíkur og halda þar jól.

Innlendar Fréttir