4 C
Grindavik
18. apríl, 2021

Hörður Orri ráðinn framkvæmdastjóri Herjólfs

Skyldulesning

Stjórn Herjólfs ohf. hefur ráðið Hörð Orra Grettisson í starf framkvæmdastjóra félagsins. 38 einstaklingar sóttu um starfið sem auglýst var fyrr í vetur. Umsóknarfrestur var til og með 5. desember síðastliðins. Umtalsvert fleiri karlar sóttu um starfið en konur, eða 34 karlar og 4 konur.

Segir í tilkynningu frá Herjólfi ohf. að í kjölfar viðtala við umsækjendur og söfnun umsagna hafi stjórn Herjólfs ohf. verið samhljóma í ákvörðun sinni að ráða Hörð Orra.

Hörður Orri er 37 ára Vestmanneyingur og er þar búsettur. Hann lauk B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2007 og útskrifaðist með meistaragráðu í hagfræði frá Viðskiptaháskólanum í Árósum árið 2010. Hörður var áður forstöðumaður hagdeildar hjá Ísfélagi Vestmannaeyja og framkvæmdastjóri íþróttafélagsins ÍBV frá árinu 2019.

Í tilkynningu býður stjórn Herjólfs Hörð Orra velkominn til starfa.

Þá segir í tilkynningu stjórnar:

Stjórn Herjólfs ohf. hefur ákveðið að birta ekki lista yfir umsækjendur um starf framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. Samkvæmt úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál er opinberum hlutafélögum ekki skylt að veita aðgang að upplýsingum um nöfn umsækjenda um auglýst störf. Það er mat stjórnar Herjólfs ohf. að óskir umsækjenda um nafnleynd og persónuverndarsjónarmið vegi þyngra en upplýsingagjöf til almennings um hverjir voru meðal umsækjenda.

Innlendar Fréttir