7.3 C
Grindavik
20. september, 2021

Hörður segir embættismenn fara offari í aðgerðum sínum gegn kórónuveirunni

Skyldulesning

Talibana siglingaklúbburinn

Vestmannaeyjur?

Kvótann heim

Er orðið sjálfstætt markmið að viðhalda hörðum sóttvarnaaðgerðum gegn kórónuveirunni nánast óháð þróun faraldursins? Að þessu spyr Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðar Fréttablaðsins, í grein í blaðinu í dag. Hún ber yfirskriftina „Farið offari“.

Hann segir að allir vilji berjast gegn veirunni en fólk greini á um leiðir og hversu langt á að ganga. „En er það orðið sjálfstætt markmið að viðhalda hörðum sóttvarnaaðgerðum nánast óháð þróun faraldursins?“ spyr hann og svarar að svo megi ætla þegar við sjáum nú mótstöðuna gegn því að stigin séu markviss og tímabær skref til að vinda ofan af þeim lokunum og samkomuhömlum sem hafa verið við lýði í tæpa tvo mánuði.

„Forsendur hafa breyst verulega frá því að þeim var komið á með þeim rökstuðningi að heilbrigðiskerfinu stafaði hætta af miklum vexti í fjölda smitaðra. Nú er staðan önnur og betri. Landspítalinn hefur verið færður af bæði neyðarstigi og hættustigi – sem hafði komið til einkum vegna smits á Landakoti með hörmulegum afleiðingum – og nýgengi smits hér á landi mælist hvergi lægra í Evrópu. Þrátt fyrir að við vitum meira um veiruna, og heilbrigðisyfirvöld hafi að sama skapi fleiri úrræði en áður til að annast þá sem veikjast alvarlega, þá erum við engu að síður með strangari hömlur en í vor þegar smitstuðullinn var hærri og landamærin einnig mun opnari en nú. Ekki er að furða að margir eigi erfitt með að átta sig á samhengi aðgerðanna og hvert sé í raun markmiðið með þeim á sama tíma og þær eru jafnt og þétt að leggja efnahag landsins í rúst,“ segir Hörður og bætir við að auðvitað væri einfaldast að loka öllu og setja á útgöngubann. Það eigi hins vegar ekki að vera valkostur í lýðræðisríki og slíkar aðgerðir myndu valda umtalsvert meiri hörmungum en ávinningi.

Hann vitnar í orð Haralds Briem, fyrrum sóttvarnalæknis, sem hefur bent á að ekki gangi til lengdar að viðhalda samkomubönnum í baráttunni við veiruna. Segir Hörður að ágætt væri ef eftirmaður hans, þar á hann við Þórólf Guðnason núverandi sóttvarnalækni, gæti tamið sér sama raunsæi í stað þess að hræða fólk til stuðnings áframhaldandi aðgerðum sem virðist miða að því að gera landið veirulaust.

„Því miður er það að gerast sem sumir óttuðust. Embættismenn, sem hafa öðlast gríðarmikil völd á þessum veirutímum, hafa vanist þeim óþægilega mikið og eru um margt að fara offari í aðgerðum sínum,“ segir Hörður.

Hann segir að nú þurfi að bregðast við þessu. Ljós sé við enda ganganna þegar bóluefni sé í augsýn. Nýta eigi þá stöðu, eins og Samtök atvinnulífsins hafa lagt til, til að útbúa skýran ramma hvað varðar sóttvarnaráðstafandir næstu mánaða og að þær verði tengdar við töluleg viðmið um þróun faraldursins hverju sinni.

„Slíkt væri til þess fallið að auka á fyrirsjáanleika aðgerðanna og um leið létta verulega á þeirri óvissu sem nú er alltumlykjandi. Það er ekkert sem kallar á viðvarandi krísuástand, sem er á góðri leið með að drepa allt samfélagið í dróma, fram að þeim tíma þegar búið verður að bólusetja stóran hluta þjóðarinnar. Það stendur á forystumönnum ríkisstjórnarinnar, ekki þríeykinu, að rétta við kúrsinn þegar teknar verða afdrifaríkar ákvarðanir um næstu skref,“ segir Hörður að lokum.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir