8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Hótað landamæralögreglu

Skyldulesning

Mæðgurnar Þórunn og Ásta ásamt börnum Ástu, tvíburunum Tuma og …

Mæðgurnar Þórunn og Ásta ásamt börnum Ástu, tvíburunum Tuma og Unu Ástubörnum. Þórunn segir farir sínar ekki sléttar eftir lýjandi ferðalag til Óslóar þar sem hún hyggst verja jólunum með fjölskyldunni.

Ljósmynd/Aðsend

„Ég er alveg dauðuppgefin eftir þetta,“ segir Þórunn Óskarsdóttir, félagsráðgjafi á áttræðisaldri frá Vestmannaeyjum, í samtali við mbl.is, en Þórunn lenti hvort tveggja á Gardermoen-flugvellinum í Noregi í gær og verstu hliðum norskra sóttvarnareglna þar sem henni var hótað landamæralögreglu yfirgæfi hún farsóttarhótelið.

„Ég sá blaðamannafundinn sem hún Monica Mæland [dómsmálaráðherra Noregs] hélt um miðja síðustu viku þar sem hún sagði að reglunum yrði breytt og maður gæti verið í húsnæði þar sem maður hefði séraðgang að baðherbergi og eldhúsi og svo var auðvitað krafist skimunarvottorðs frá Íslandi sem var ekki ókeypis, það kostaði fimm þúsund kall,“ segir félagsráðgjafinn um vottorð sem hún var aldrei krafin um.

Örtröð á Gardermoen

Dóttir Þórunnar, Ásta Hafþórsdóttir, brá skjótt við og fékk íbúð vinkonu sinnar í Tøyen-hverfinu í Ósló leigða móður sinni til sóttkvíar þar sem hún nú dvelur. Ekki gekk þó átakalaust að komast þangað.

„Ég taldi mig vera í nokkuð góðum málum með leigusamning og Covid-vottorð og flaug hingað í gegnum Kaupmannahöfn sem var ekki ókeypis heldur, rándýrt,“ segir Þórunn.

Á Gardermoen skall heimsástandið á Þórunni af fullum þunga. „Allir þurftu að fara í gegnum vegabréfaskoðun, það voru greinilega margar vélar að koma á sama tíma, ofboðslega margt fólk og mikil örtröð og verðir út um allt sem voru ekkert að passa upp á að bil væri milli fólks,“ segir Þórunn.

Fékk ekki að fara á klósettið

„Þetta tók óratíma. Ég spurði hvort ég mætti fara á klósettið og var þá sagt að ég mætti ekki fara ein, mér var fylgt þangað og vörðurinn beið fyrir utan. Kona sem var samferða mér og var að koma frá Austurríki mátti ekki fara og skola pela barnsins sína, svona voru sögurnar sem maður heyrði,“ segir Þórunn.

Hún segir öryggisgæslu Gardermoen-flugvallarins hafa látið allt tal um að hún hefði íbúð til leigu sem vind um eyru þjóta. „Þeir vildu ekki sjá neinn leigusamning eða Covid-próf, inn á hótel með ykkur var mér bara sagt. Við vorum skrifuð niður, nafn og símanúmer og sagt að við mættum bara fara. Ég spurði þá hvort okkur yrði ekki skutlað á hótelið og svarið var bara nei nei, þið verðið að bjarga ykkur sjálf,“ segir Vestmannaeyingurinn og kveðst hafa upplifað meiri kurteisi í Noregi, en Þórunn nam félagsráðgjöf í Stavanger árin 1974 til 1977.

Steininn hafi þó tekið úr þegar hún kom á Anker-hótelið í Ósló seint í gærkvöldi, sem mbl.is fjallaði um fyrr í kvöld. „Við þurftum að borga þrjá sólarhringa fyrir fram og fengum svo volga pizzu frá Domino‘s í kvöldmat, hreint ekkert sérstaka, og ég var bara orðin öskureið yfir þessu öllu saman,“ segir Þórunn sem fékk þó herbergi út af fyrir sig eftir að hafa lesið fréttir um ókunnugt fólk sem var staflað saman í herbergi.

Starfsfólkið pirrað

„Auðvitað var fólk búið að vinna langan vinnudag, ég skil það alveg, og maður fann alveg á starfsfólkinu að því fannst fólk ekki eiga að vera að ferðast neitt í þessu ástandi, en auðvitað vil ég vera hjá dóttur minni og barnabörnunum yfir jólin,“ segir Þórunn.

Nýju reglurnar um íbúð í stað hótels hafi átt að taka gildi klukkan 17 í dag, sunnudag, segir Þórunn og getur blaðamaður staðfest sannleiksgildi þess.

„En það var nú ekki alveg þannig,“ rifjar Þórunn upp. „Þá voru komnar þarna stúlkur frá kommúnunni [sveitarfélaginu] og þær höfðu ekki fengið nein skilaboð um hvernig ætti að afgreiða okkur svo við þurftum að bíða til klukkan sex og þá var haldinn fundur þar sem okkur var sagt að fylla út eyðublað með upplýsingum um hvar við ætluðum að búa og svo framvegis. Svo var hringt í mig klukkan átta og ég boðuð á fund þar sem ég bauð þeim að skoða Covid-vottorðið og leigusamninginn en var sagt að fara bara,“ segir Þórunn og hlær við.

„Þurfum að láta landamæralögreglu vita“

Í millitíðinni var Þórunni þó hótað landamæralögreglu. Eftir að hún las um blaðamannafundinn með Monicu Mæland dómsmálaráðherra hélt hún rakleiðis niður í afgreiðslu og sagðist ætla að yfirgefa hótelið.

„Þá var bara sagt við mig „Ja, ef þú ætlar að gera það þurfum við að láta landamæralögregluna vita,“ segir Þórunn og kveður skilaboðin hafa verið þau að hún mætti í raun ekki yfirgefa hótelið þrátt fyrir yfirlýsingu dómsmálaráðherra sem fól í sér að nýjar reglur giltu frá klukkan 17 í dag.

„Svo kom dóttir mín og sótti mig sem var í lagi svo lengi sem maður sæti í aftursæti og væri með grímu, en það var svo sem enginn að fylgjast með því,“ segir Þórunn sem var aðframkomin af þreytu þegar hún ræddi við mbl.is í kvöld en sæl yfir að vera þó komin í var.

Innlendar Fréttir