3 C
Grindavik
1. mars, 2021

Hrein viðbót eða áður mæld loðna?

Skyldulesning

Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, segir það hafa verið mikilvægt að Víkingur hafi getað siglt á svæðin austur af landi þar sem tilkynnt var um töluvert af loðnu.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Yfirferð þriggja skipa og mælingum á loðnu á svæði úti fyrir Austfjörðum lýkur væntanlega í dag, að sögn Guðmundar J. Óskarssonar, sviðsstjóra hjá Hafrannsóknastofnun. Ráðgert er að halda áfram mælingum norður fyrir Langanes eftir því sem aðstæður leyfa, en útlit er fyrir erfiðara veður á morgun.

Reynt verður að fá mat á því hvort þetta sé hrein viðbót við síðustu mælingar frá því í byrjun janúar eða hvort þetta sé hluti af þeirri loðnu sem fannst norður af Langanesi á þeim tíma og hafi gengið þetta langt í suður síðan þá.

Fyrir helgi bárust fréttir frá togurum um að töluvert væri af loðnu á Seyðisfjarðardýpi. Í kjölfarið fór Víkingur AK, sem var á leið til löndunar á Vopnafirði af kolmunnamiðum, yfir svæðið. Staðfest var að þarna væri „eitthvert magn sem væri að sjá við kantinn frá Hvalbakshalla og alla vega um 50 sjómílur þaðan í norður,“ eins og segir í frétt á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.

Síðdegis á sunnudag fóru Ásgrímur Halldórsson SF og grænlenska skipið Polar Amaroq til að mæla og meta umfang loðnunnar á þessum slóðum. Líkt og í fyrri mælingum eru þrír sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar í hvoru skipi. Bjarni Ólafsson AK er jafnframt með í verkefninu með það hlutverk að afmarka dreifingu loðnunnar til að flýta fyrir mælingum.

Guðmundur segir að mikilvægt hafi verið að fá Víking til að sigla þarna yfir aðfaranótt sunnudags. Tækin um borð séu stillt miðað við veiðar á uppsjávarfiski. Skipið hafi krussað á svæðinu áður en beygt var inn til Vopnafjarðar. „Þetta er spennandi og vonandi kemur eitthvað út úr þessu,“ sagði Guðmundur.

Rannsóknaskipin tilbúin

Rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar eru tilbúin til brottfarar frá Hafnarfirði og verður brottför þeirra hagað í samræmi við veður og upplýsingar frá skipunum, að sögn Guðmundar. Þá er búist við að Polar Amaroq haldi fljótlega til loðnuveiða er leyfi liggja fyrir. Upplýsingar frá veiðiskipum munu þá nýtast fiskifræðingum við mat á stöðunni.

Reglugerðir hafa verið gefnar út um loðnuveiðar erlendra skipa við landið á þeim 21.800 tonnum, sem heimilt er að veiða að óbreyttu.

Innlendar Fréttir