Tanner Cook, 21 árs YouTube-stjarna, má teljast heppinn að vera á lífi eftir að hafa hrekkt viðskiptavin verslunarmiðstöðvar í Virginíuríki á dögunum.
Tanner heldur úti vinsælli YouTube-síðu, Classified Goons, þar sem hann sýnir frá ýmsum hrekkjum. Tanner á það til að ganga býsna langt og eru hrekkirnir oftar en ekki til þess fallnir að vekja upp reiði hjá fólki.
Tanner var staddur í verslunarmiðstöð síðastliðinn sunnudag til að taka upp efni fyrir rás sína og þar lenti hann á einstaklingi sem var ekki reiðubúinn að láta hrekkja sig. Dró hann upp byssu og skaut Tanner í kviðinn með þeim afleiðingum að hann slasaðist illa.
Tanner lýsti atvikinu í samtali við WUSA-fréttastofuna og sagði hann að byssumaðurinn hafi ekki tekið hrekknum vel. Dró hann upp byssu án þess að segja orð og hleypti af. Atvikið náðist á myndband sem nú er í höndum lögreglunnar.
Byssumaðurinn var handtekinn skömmu síðar en hann er 31 árs gamall og gæti átt yfir höfði sér þungan fangelsisdóm. Tanner er hvergi banginn eftir atvikið og segist hann ætla að halda hrekkjunum áfram þegar hann hefur jafnað sig að fullu.