1.3 C
Grindavik
29. janúar, 2023

Hugguleg skógarferð í Svíþjóð var upphafið að mikilli ráðgátu

Skyldulesning

Í janúar 2020 fór par eitt í það sem átti að vera hugguleg skógarferð í Halland í suðurhluta Svíþjóðar. Á ferð sinni um skóginn gerðu þau óvænta uppgötvun sem hefur síðan verið til rannsóknar hjá lögreglunni án þess að hún sé miklu nær því að leysa málið.

Þegar parið kom að enda stutts og varla göngufærs stígs og horfði nokkur hundruð metra áfram sá það eitthvað liggjandi á jörðinni. Við nánari skoðun reyndist þetta vera höfuðkúpa af manni. Þau tilkynntu lögreglunni auðvitað strax um þetta. Þegar lögreglumenn komu á vettvang sáu þeir bein sem stóð upp úr jörðinni skammt frá höfuðkúpunni. Sérþjálfaðir leitarhundar voru fengnir á vettvang og vísuðu þeir á steypuklumpa með mannabeinum í, litla beinhluta nokkur hundruð metra frá höfuðkúpunni og leifa af plastkössum sem kveikt hafði verið í en þeir höfðu verið grafnir niður.

Það var strax ljóst að hér hafði afbrot átt sér stað og lögreglan hóf strax að rannsaka málið sem morð.

Á þeim tveimur árum sem rannsóknin hefur staðið yfir hefur lögreglan beitt ýmsum aðferðum til að reyna að fá svör við því hvert fórnarlambið er og hvernig og af hverju endaði það einmitt þarna í skóginum.

En það hefur ekki tekist að bera kennsl á fórnarlambið. Í fréttatilkynningu frá lögreglunni er haft eftir Lars-Gunnar Perlinger, sem stýrir rannsókninni, að leitað hafi verið í DNA-skrám í 50 löndum að svörun við DNA úr beinunum, en án árangurs. Einnig hefur verið gerð víðtækari leit á grunni þess DNA sem lögreglan hefur, en án árangurs.

Kolaldursgreining leiddi í ljós að beinin eru af karlmanni sem var á milli 30 og 40 ára þegar hann lést. Hann var 1,75 til 1,80 cm á hæð. Hann fæddist utan Skandinavíu og rannsóknir á tönnum hans benda til að hann sé frá Austur-Evrópu.

Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að maðurinn hafi látist einhvern tímann eftir 2015 en ummerki í skóginum sýni að honum hafi verið komið fyrir þar sumarið eða haustið 2019. Það geti bent til þess að maðurinn hafi verið myrtur annars staðar en í skóginum.

Undir plastkössunum, sem fundust á vettvangi, var gras og telur lögreglan því að þeir hafi staðið á grasi áður en þeir voru grafnir niður. Sérfræðingur frá náttúrfræðisafninu í Stokkhólmi var fenginn til að rannsaka grasið og komst að þeirri niðurstöðu að það hafi sprottið á tímabilinu júní til september 2019. Það er að segja fjórum til sjö mánuðum áður en beinin fundust.

Peysa sem fannst var framleidd haustið 2018 og meðal annars seld í Svíþjóð, Þýskalandi og Tékklandi.

Á síðasta ári fékk lögreglan sérfræðing til að gera líkan af andliti mannsins út frá höfuðkúpunni og öðrum fyrirliggjandi upplýsingum. Það eru myndir af því líkani sem fylgja þessari grein en lögreglan birti myndirnar nýlega í þeirri von að einhver beri kennsl á manninn.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir