Hún skrifaði bók um sorg eftir að eiginmaður hennar lést – Nú hefur hún verið ákærð fyrir morð hans – DV

0
47

Þriggja barna móðir missti eiginmann sinn og ákvað í kjölfarið að skrifa bók til að hjálpa börnum að takst á við sorgina. Eiginmaður Kouri Richins, Eric Richins, lést fyrir ári síðan, þann 4. mars 2022. Hann var úrskurðaður látinn af viðbragðsaðilum sem mættu á svæðið eftir að Kouri hringdi um miðja nótt og tilkynnti að maður hennar væri orðinn kaldur.

Hún greindi lögreglu frá því að hún hefði blandað áfengan drykk handa manni sínum og fylgt honum inn í svefnherbergi. Hún hafi svo farið að sinna einu barni þeirra í herbergi þess. Þegar hún sneri til baka hafi Eric verið meðvitundarlaus, en lögregla fann Eric liggjandi við rúm þeirra.

Samkvæmt krufningu hafði Eric látið lífið af of stórum skammti af verkjalyfinu fentalýn, sem hefur dregið alltof marga til dauða. Í blóði hans fannst svo mikið magn af lyfinu að það hefði nægt til að svipta fimm manneskjur lífinu.

Eðlilega tók andlátið á fjölskylduna og áttu börnin erfitt með að takast á við að hafa misst pabba sinn. Kouri ákvað því að skrifa bók sem ætluð var til að hjálpa börnum að komast yfir slíka sorg, en bókin kom út í mars á þessu ári og kallast Are you with me og fjallar um barn sem missir föður sinn en er sífellt minnt á að faðir þess er enn með því, alveg eins og verndarengill sem vaki yfir því.

Kouri fylgdi bókinni eftir með því að mæta í viðtöl í sjónvarpi. Þar lýsti hún andláti eiginmanns síns sem óvæntu.

„Bókin- skilurðu- útskýrir fyrir börnunum mínum að jafnvel þó hann sé ekki með okkur hér í dag, þá þýðir það ekki að hann sé ekki með okkur í anda,“ sagði hún í viðtali.

En svo heyrði til tíðinda. Við rannsókn málsins fékk lögregla þær upplýsingar frá kunningja Kouri að hún hefði beðið hann um að redda sér lyfseðilskyldum verkjalyfjum. Fyrst hafi kunninginn reddað kódíni en Kouri hafi viljað eitthvað sterkara. Kunninginn hafi þá látið hana fá á bilinu 15-30 fentalýn töflur og þremur dögum seinna hafi Eric orðið verulega veikur eftir að hafa borðað mat með konu sinni og börnum.

„Skömmu eftir matinn varð Eric mjög veikur. Eric sagði vini sínum að hann héldi að eiginkona hans væri að reyna að eitra fyrir honum.“

Sex dögum eftir að hún fékk pillurnar, var Eric látinn. Lögregla fann einnig út að sú frásögn sem Kouri gaf af andlátinu kom ekki heim og saman við gögn úr síma hennar. Síminn sýndi að hún hefði aflæst símanum og læst ítrekað áður en hún hringdi í neyðarlínuna og hún hafi greinilega verið að færa sig á milli herbergja. Hún hefði einnig sent og tekið við skilaboðum sem hún hafi svo eytt.

Kouri hefur nú verið handtekin ákærð fyrir morð af yfirlögðu ráði sem og að hafa haft ávanalyf undir höndum ætlað til dreifingar.