Hundurinn nagaði tána næstum af eiganda sínum – Það endaði á að bjarga lífi hans – DV

0
129

Það er ekki að ástæðulausu að hundar eru kallaðir bestu vinir mannsins. Þó að hundurinn Harley hafi ekki haft gott eitt í hyggju þegar hann svo gott sem nagaði stóru tána af eiganda sínum, hinum 64 ára David Lindsay, má samt segja að það hafi bjargað lífi hans.

David var í fastasvefni þegar konan hans vakti hann með öskrum nótt eina fyrir skemmstu. Blóðpollur var í rúminu og var Harley að japla á tá eiganda síns án þess að hann tæki eftir. Var Harley raunar byrjaður að mylja sjálft tábeinið í sig svo langt var hann kominn.

Sú staðreynd að Lindsay fann ekki fyrir neinu vakti ákveðnar spurningar hjá honum og eiginkonu hans. Eiginkonan gerði um sárið en vegna sýkingar sem kom upp í tánni drifu þau sig til læknis.

Það var þar sem í ljós kom að tvær stórar æðar í fætinum voru nánast alveg lokaðar og blóðflæði orðið verulega skert. David þjáist af sykursýki og voru læknar á því að hann hefði að líkindum misst fótlegginn – eða þaðan af verra – ef hann hefði ekki leitað til læknis.

Eru læknar nú að skoða hvort hægt sé að koma svokölluðu stoðneti fyrir í æðunum, en það er notað til að halda æðum eða öðrum rásum líkamans opnum sem sjúkdómar eða slys hafa skaddað.

David kýs að líta á björtu hliðarnar á málinu og kveðst þakklátur hinum sjö mánaða gamla Harley fyrir matarlystina sem hann sýndi þessa nótt. „Ég held vonandi tánni en ef ekki þá væri ég til í að taka hana með mér heim og leyfa honum að klára,“ segir hann.