2 C
Grindavik
16. janúar, 2021

Hús dagsins: Hafnarstræti 17

Skyldulesning

„Animal Farm Revisited“

Sálmarnir

Borgarlínan brunar

„Fréttir“ á íslandi

Einn skelfilegasti atburður mannkynssögunnar, kjarnorkuárásin á japönsku PB290972borgina Hiroshima átti sér stað þann 6. ágúst 1945.  Sama dag, hinu megin á jarðkúlunni , gerði Tryggvi Jónatansson múrarameistari teikningar að húsi Aðalgeirs Kristjánssonar við Hafnarstræti 17. Fjórum dögum síðar fékk Aðalgeir samþykkt byggingarleyfi fyrir umræddu húsi, sem myndi vera 8x9m að stærð, steinsteypt með steinlofti, efri hæð úr steini og þakið flatt steinþak. Lóðina hafði Aðalgeir fengið um vorið, og samkvæmt því sem tíðkaðist í bókun byggingarnefndar var númer lóðar ekki tilgreint heldur lóðin einfaldlega sögð „næst norðan við Karl Jónasson“ [Hafnarstræti 15]

Hafnarstræti 17 er tvílyft steinsteypuhús með valmaþaki. Steining er á veggjum og bárujárn á þaki og einfaldir þverpóstar í gluggar. Þykkir, steyptir rammar utan um glugga og dyr gefa húsinu sérstakan svip og þá er á norðurhlið skraut, líklega steypt, sem minnir á halastjörnu.

Á lóðinni stóðu áður verslunarhús Gudmanns og síðar Höepfnersverslunar. Fyrirrennari hússins brann árið 1912 í einum af þremur „bæjarbrununum“, einum af mestu stórbrunum í sögu Akureyrar. Stóð lóðin auð í röska þrjá áratugi, uns  Aðalgeir Kristjánsson reisti þarna húsið sem enn stendur. Byggingarleyfið fékk hann 1945 en skráð byggingarár er 1949. Þá hefur húsið verið fullbyggt. Aðalgeir Kristjánsson, verkamaður, var úr Þingeyjarsýslu, uppalinn á Máskoti í Reykjadal (skráður þar í Manntali 1901). Hann var kvæntur Ölmu Magnúsdóttur, sem var fædd árið 1896 á Akureyri og uppalin í nærsveitum, búsett árið 1901 að Kaupangsbakka. Bjuggu þau hér til æviloka, Aðalgeir lést árið 1975 en Alma árið 1986. Hafa síðan ýmsir átt og búið í þessu ágæta og reisulega húsi, og öllum auðnast að halda því vel við. Húsið er alltént í mjög góðri hirðu og hefur lítið sem ekkert verið breytt frá upphaflegri gerð.

Húsið er að upplagi nokkuð látlaust en engu að síður nokkuð skemmtilegt og skrautlegt. Setja gluggarammar á það skemmtilegan svip og ljá húsinu ákveðið sérkenni. Þá er „halastjarnan“ á norðurhlið áberandi skraut, en húsið blasir við hverjum þeim sem leið eiga um mót Aðalstrætis og Hafnarstræti, milli „Höepfners og Thuliunusar“. Í Húsakönnun 2012 er húsið sagt hluti samstæðrar heildar, sem lagt er til að hljóti varðveislugildi með hverfisnefnd í deiliskipulagi, en þessi röð tveggja hæða steinhúsa er í samræmi við fyrsta Aðalskipulag bæjarins, sem gert var 1927. Ein íbúð er í húsinu. Myndin er tekin þann 29. nóvember 2020.

Heimildir: Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1941-48. Fundur nr. 1010, 13. apríl 1945. Fundur  10. ágúst 1945.  Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Hjörleifur Stefánsson, Hanna Rósa Sveinsdóttir. 2012. Húsakönnun- Fjaran og Innbærinn. Minjasafnið á Akureyri. Pdf-skjal á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/Fjaran-og-Innbaerinn-2012.pdf

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur


Innlendar Fréttir