-3 C
Grindavik
22. janúar, 2021

Hús dagsins: Hafnarstræti 97

Skyldulesning

Verslunarmiðstöðin Krónan var reist árið 1992 P8170993eftir teikningum Aðalsteins Júlíussonar. Þar stóð áður hús, sem reist var árið 1903 og var alla tíð íbúðar- og verslunarhús, hýsti um árabil m.a. Bókabúðina Huld. Það hús, sem var tvílyft timburhús á háum kjallara og með lágu risi var hins vegar rifið 1991. Krónuna reisti Byggingafélagið Lind  og hófst steypuvinna haustið 1991.

Hafnarstræti 97 er sex hæða steinhús með flötu þaki, efri hæðir inndregnar, í samræmi við aðliggjandi hús. Önnur til fjórða hæð hússins skaga fram í  trapisulagu útskoti á framhlið, en bakhlið hússins er fast upp að melbrekkunni bröttu, sem kallast Skessunef. Þar liggur fimmta hæð hússins að Gilsbakkavegi með inngangi þaðan. Á milli hússins og Amaróhússins er djúpt port og tengjast húsin með göngubrú.

Enda þótt verslunarmiðstöðin Krónan sé aðeins um 30 ára gömul yrði það ansi langt mál að telja upp alla þá starfsemi og einstaka verslanir sem þar hafa verið. En á fyrstu og annarri hæð hússins eru verslanarými, sjúkraþjálfunarstöð á þriðju hæð, tónlistarskólinn Tónræktin og ýmsar skrifstofur á efri hæðum.

Krónan er hluti hinnar miklu húsasamstæðu yst í Hafnarstræti sem ekki aðeins setja svip á Miðbæinn heldur móta ásýnd hans að miklu leyti. Húsaröðin, sem samanstendur af stórhýsum af ólíkum gerðum og á ólíkum aldri er talin hafa nokkurt gildi í heild sinni, enda þótt varðveislugildi einstakra húsa sé almennt ekki talið verulegt. Krónan er stórbrotið og svipsterkt hús og setur útskotið að framan á það sérstakan svip og götumyndina í heild sinni. Myndin er tekin þann 17. ágúst 2020.

Heimildir: Landslag arkitektastofa 2014. Akureyrarbær Miðbær- Húsakönnun. Unnið fyrir Akureyrarbæ. Óprentað, pdf aðgengilegt á slóðinni http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/midbaer_husakonnun-2014.pdf


Innlendar Fréttir