Hvarf lyktarskynið af völdum COVID-19? – Þá getur þetta verið leiðin til að fá það aftur – DV

0
133

Ert þú meðal þeirra sem misstu lyktarskynið af völdum COVID-19? Ef svo er þá geturðu glaðst yfir niðurstöðum nýrrar rannsóknar varðandi þetta. Missir á lyktarskyni er nokkur algengur fylgikvilli COVID-19 og það sama á við um að missa bragðskynið.

Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til að fólk, sem glímir við langvarandi missi lyktarskyns, geti þjálfað heilann til að fá lyktarskynið á nýjan leik. Missir og lyktar- og bragðskyns er afleiðing af því að heilinn er „endurforritaður“.

Mirror segir að vísindamenn við University College London hafi komist að þeirri niðurstöðu í rannsókn sinni að fólk, sem glímir við langvarandi missi lyktar- og bragðskyns, geti þjálfað heilann til sigrast á þessu vandamáli.

Í þjálfuninni felst að fólk örvar þefskyn sitt með því að þefa af matvælum sem eru til á flestum heimilum. Þefa á af þeim í 10 sekúndur tvisvar á dag. Nefna vísindamennirnir meðal annars sítrónur, appelsínur og kaffi til sögunnar sem þefvæna matvöru.

Segja vísindamennirnir að heilasneiðmyndir sýni að missir lyktar- og bragðskyns sé afleiðing af breytingum á heilanum. Þær aftengja tvo hluta heilans og gera hann ófæran um að vinna almennilega úr lykt.