Hver er minnsti þekkti loftsteinninn og hver er sá stærsti? – DV

0
122

Því fer fjarri að allir loftsteinar séu færir um að valda miklu tjóni á plánetum ef þeir lenda í árekstri við þær. Flestir eru mjög litlir en aðrir eru mjög stórir. En hver er minnsti þekkti loftsteinninn í sólkerfinu og hver er sá stærsti? Þessu var nýlega velt upp í umfjöllun Live Science. Þar kemur fram að stærsti þekkti loftsteinninn í sólkerfinu sé Ceres en hann er tæplega 950 km í þvermál eða um einn fjórði af stærð tunglsins.

Þegar kemur að minnsta loftsteininum vandast málið en samkvæmt skrám bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA þá er loftsteinninn 2015 TC25 aðeins tveir metrar í þvermál.

Sumir vilja skilgreina loftsteina sem svo að þeir séu minnst einn metri í þvermál en ekki eru allir vísindamenn sammála um þetta.

Flestir loftsteinarnir í sólkerfinu eru í loftsteinabeltinu sem er á milli Mars og Júpíter. Þetta er 225 milljóna kílómetra breitt belti fullt af steinum og ryki. Vísindamenn hafa skráð um milljón hluti þar fram að þessu. Líklegt þykir að margar milljónir til viðbótar séu þar.