Hvernig notar þú tölvumúsina? – Getur sagt til um stressstigið – DV

0
112

Ef þú vinnur daglega við tölvu og notar mús þá kannast þú kannski við tilfinninguna um að músin sé á fleygiferð um skrifborðið þitt. Í nýrri rannsókn, sem hefur verið birt í Journal of Biomedical Informatics, kemur fram að það hvernig þú notar músina og lyklaborðið geti endurspeglað stressstig þitt.

Vísindamennirnir sem gerðu rannsóknina starfa hjá Swiss Federal Institute of Technology. Þeir komust einnig að þeirri niðurstöðu að með þessari aðferð sé hugsanlega auðveldara að uppgötva stress en með því að mæla hjartslátt.

Science Alert skýrir frá þessu.

Í rannsókninni voru 90 þátttakendur sem fengu ýmis verkefni sem líktust skrifstofuvinnu. Til dæmis að skipuleggja fundi og greina gögn.

Á meðan rannsóknin stóð yfir fylgdust vísindamennirnir með notkun þátttakendanna á mús og lyklaborði, mældu hjartslátt þeirra og spurðu þá reglulega um hversu stressaðir þeir væru.

Helmingurinn af þátttakendunum fékk að vinna í friði og ró en hinn helmingurinn var ítrekað truflaður með skilaboðum og öðrum verkefnum sem var ætlað að stressa þá.

Í ljós kom að þeir stressuðu hreyfðu músina sína öðruvísi en hinir. Mara Nagelin, doktorsnemi í stærðfræði, sagði að svo virðist sem stressað fólk hreyfi músina oftar og ónákvæmar og yfir stærra svæði á skjánum.

Stressaði hópurinn hafði tilhneigingu til að ýta á ranga takka á lyklaborðinu og gerði það með mörgum stuttum hléum en hinn hópurinn tók færri en lengri pásur.