4 C
Grindavik
7. mars, 2021

Hvers vegna er ekki til nóg af heitu vatni?

Skyldulesning

Landsmenn hafa verið hvattir til að stilla heitavatnsnotkun sinni í …

Landsmenn hafa verið hvattir til að stilla heitavatnsnotkun sinni í hóf.

Ljósmynd/Atli Már Hafsteinsson

Vegna yfirvofandi frostaveðurs hafa landsmenn verið hvattir til þess að stilla heitavatnsnotkun sinni í hóf, loka gluggum og útidyrahurðum svo að kynding fari ekki til spillis og hvaðeina. Álag á hitaveitum er sagt umtalsvert og því verði fólk að gæta sín. 

En hvernig má það vera að á tímum heimsfaraldurs, þegar samfélagið er í hægagangi, sundstaðir lokaðir og fáir sem engir ferðamenn á ferli, að hitaveitur hafi vart undan?

„Við höfum hreinlega spurt okkur að þessu sjálf,“ segir Guðmundur Óli Gunnarsson, starfandi forstöðumaður hitaveitu hjá Veitum, í samtali við mbl.is

Guðmundur Óli Gunnarsson, starfandi forstöðumaður hitaveitu Veitna.

Guðmundur Óli Gunnarsson, starfandi forstöðumaður hitaveitu Veitna.

Ljósmynd/Atli Már Hafsteinsson

Kaldara veðurfar og meiri notkun

Hann segir að þvert á móti sem halda mætti, hafi heitavatnsnotkun aukist miðað við sama tímabil í fyrra og því sé álagið á kerfið eins mikil og raun ber vitni. Svo er líka kaldara að meðallagi en í fyrra.

„Já, við höfum séð 11% aukningu frá því á sama tímabili í fyrra. Vanalega er aukning milli ára ekki nema svona um 2% að meðaltali og það er þá vegna fyrirsjáanlegra þátta á borð við fólksfjölgunar og stækkunar byggðar.“

Núna er þessari fyrirsjáanlegu aukningu hins vegar ekki að heilsa og því standa menn, að einhverju leyti, á gati. En þó ekki alveg: Guðmundur telur sig hafa einhver svör.

„Sko, samkvæmt kínverskri rannsókn sem gerð var í fyrstu bylgju þessa faraldurs þá hefur orkunotkun aukist umtalsvert.“ 

Það er sama rannsókn og fjallað var um á mbl.is í gær

Líklega allt kórónuveirunni að kenna

„Við höfum ekki séð svona tölur áður, svona aukningu. Við bjuggumst við fólksfjölgun og stækkun byggðar en ekki mesta frosti í sjö ár ofan á breytt neyslumynstur vegna heimsfaraldurs,“ segir Guðmundur.

En verða menn þá ekki að setja sig í einhverjar stellingar til þess að mæta þessari auknu þörf, sérstaklega ef hún er vegna veirunnar?

„Nei, það er einmitt málið. Ef þessi aukning er vegna veirunnar þá er aukningin komin fram að við teljum og mun þ.a.l. ekki aukast milli ára neitt meir.“

„Svo er líka bara kaldara en í fyrra. Mig minnir að meðalhiti í ár sé ca. 0,9 gráðum lægri en fyrstu 10 mánuði ársins í fyrra. Það spilar líka inn í þetta aukna álag.“

Sannkallað vetrarveður hefur verið undanfarna daga um land allt og …

Sannkallað vetrarveður hefur verið undanfarna daga um land allt og verður ekkert lát á því næstu daga ef marka má Veðurstofu Íslands.

mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlitið betra en á horfðist

Guðmundur segir að útlitið sé betra en fyrst var gert ráð fyrir, þ.e. að álagið á hitaveitur verður ekki jafnalvarlegt og búist var við. Engu að síður verði fólk að halda áfram að taka þátt í að takmarka sóun.

„Viðskiptavinir hafa tekið alveg svakalega vel í þessi tilmæli okkar, það verður nú að segjast. Við sjáum það á okkar mælum að fólk hefur virkilega tekið þetta til sín og hjálpað okkur og það ber að þakka fyrir það.“

Heitavatnsnotkun hefur aukist um 11% á tímum kórónuveirunnar.

Heitavatnsnotkun hefur aukist um 11% á tímum kórónuveirunnar.

Ljósmynd/Atli Már Hafsteinsson

Guðmundur segir það alveg rétt að fólk haldi gjarnan að ekki þurfi að hafa áhyggjur af sundlaugum landsins þar sem þær eru lokaðar vegna samkomutakmarkana. Hins vegar er málið ekki svo einfalt.

„Já, við höfum haldið áfram að kynda laugarnar, víða hefur skólasund haldið áfram þrátt fyrir lokanir t.a.m. Eins er alls konar iðnaður háður því að flæði heits vatns sé stöðugt; matvælaiðnaður t.d. og alls konar aðrir viðskiptavinir okkar.“

Þó ennþá einhverjar áhyggjur

Þótt útlit sé fyrir að álag á hitaveitum verði minna en á horfðist í fyrstu, segir Guðmundur að enn séu einhverjar áhyggjur. Sér í lagi er varðar höfuðborgarsvæðið og Rangárveitur, þar sem ekki eru eiginlegar hitaveitur heldur borholur.

„Við höfum nefnilega brugðið á það ráð að skrúfa aðeins upp hitann á vatninu sem kemur úr virkjununum, en það er hins vegar ekki hægt í borholunum. Það gerir það að verkum að minna vatn þarf til þess að kynda hús og annað ef það er heitara.“

En hvað getum við gert til þess að hjálpa til við að minnka álagið? Guðmundur segir að ýmislegt sé hægt að gera, sem bæði minnkar álag og er betra fyrir buddu landsmanna á sama tíma. Heita vatnið er enda ekki gefins.

„Við höfum fyrst og fremst beint þeim tilmælum til fólks að loka gluggum og ekki hafa útidyrahurðir opnar lengur en þar, þannig að hitinn sleppi ekki út.

Svo er það þetta með ofnana. Við erum ekkert að biðja fólk að slökkva á þeim, við viljum ekki kæla húsin okkar, heldur bara haga okkar málum þannig að kyndingin fari ekki til spillis.

Við skulum því forðast að byrgja fyrir ofnana, það er t.d. alveg klassískt að hafa sófa beint fyrir framan ofna, þá gera þeir ekkert gagn. 

Þeir eiga svo að vera stilltir þannig að þeir séu heitir að ofan en kaldir að neðan. Það þýðir að heitt vatn sé að koma inn á kerfið en ekki fara út. Þannig fer ekkert heitt vatn til spillis og það kostar líka minna.“

Á maður svo að sleppa því að fara í heita potta yfir helgina og passa að vera ekki of lengi í sturtu?

„Nei, við höfum nú ekki farið svo langt að segja fólki að hætta að baða sig. Við viljum nú ekki koma út úr þessu kuldaveðri í miðjum heimsfaraldri öll drulluskítug,“ segir Guðmundur og hlær með blaðamanni.

Innlendar Fréttir