Hversu langan tíma tekur það mannkynið að nýlenduvæða aðra plánetu? – DV

0
112

Elon Musk, eigandi SpaceX, Twitter og Tesla, er stórhuga varðandi landnám mannkynsins á Mars. Hann vill að þar verði ein milljón manna um miðja öldina. Þetta er auðvitað ansi metnaðarfullt markmið en er þetta hægt? Hversu langan tíma myndi það taka fyrir mannkynið að nýlenduvæða aðra plánetu? Verður einhvern tímann mögulegt fyrir mannkynið að nýlenduvæða plánetur í öðrum sólkerfum? Um þetta var fjallað nýlega á vef Live Science. Fram kemur að svarið við þessu velti mjög mikið á því hvaða plánetu er verið að tala um. Hvað Mars varðar þá eru áratugir ekki endilega óraunhæfur tími. Serkan Saydam, aðstoðarforstjóri Australian Centre for Space Engineering Research og prófessor við University of New South Wales í Sydney, sagði að hægt sé að nýlenduvæða Mars innan nokkurra áratuga.

„Ég held að árið 2050 verði nýlenda manna á Mars,“ sagði Saydam í samtali við Live Science.

Saydam er verkfræðingur sem sérhæfir sig í rannsóknum á námuvinnslu í framtíðinni. Hann sagði að fyrsta stóra skrefið í að koma upp nýlendu á Mars sé að útvega vatn. Það sé hægt að vinna það úr ís og/eða steinefnum. Hann sagðist telja að þá verði hægt að nota vatnið við landbúnað á Mars.

Þrátt fyrir að landnám á Mars sé raunhæfasti möguleikinn fyrir landnám á öðrum plánetum þá er plánetan ekki beinlínis vinaleg fyrir okkur mennina. Andrúmsloftið hentar okkur ekki, meðalhitinn er um 60 gráður í mínus og það tekur geimfar um átta og hálfan mánuð að komast til Mars, á leiðinni verður það útsett fyrir mikilli og hættulegri geislun.

Mjög líklega er hægt að finna búsetuvænni plánetur í öðrum sólkerfum, svokallaðar fjarplánetur, en vandinn við þær er hversu langt í burtu þær eru. Við höfum ekki sent geimfar til fjarplánetu og einu geimförin sem hafa yfirgefið sólkerfið okkar eru Voyager 1 og 2 en það tók þau annars vegar 35 ár og hins vegar 41 ár að komast út úr sólkerfinu. Fjarplánetur eru miklu lengra í burtu.

Frederic Marin, stjarneðlisfræðingur og sérfræðingur í svartholum við Astronomical Observatory of Strasbourg, sagði í samtali við Live Science að það muni taka nokkra tugi þúsunda ára að komast til næstu fjarplánetu með þeirri tækni sem við búum yfir núna.

Hann sagðist reikna með að í náinni framtíð sækjum við fram á tæknisviðinu og getum stytt þennan ferðatíma mikið.