9.3 C
Grindavik
25. september, 2022

Hyggjast tvöfalda hrognaframleiðslu

Skyldulesning

Stefnt er að því að framleiða allt að 200 milljónir hrogna. Ljósmynd/Lárus Karl Ingason

Áformað er að auka fiskeldi við Kalmanstjörn á Reykjanesi og hefur Benchmark Genetics Iceland lagt fram umhverfismatsskýrslu um verkefnið. Framleiðsla á laxi verður aukin úr 190 tonnum, miðað við gildandi leyfi, í allt að 600 tonna hámarkslífmassa. Með auknu eldi á kynbótalaxi verður hægt að framleiða allt að 200 milljónir hrogna, sem er tvöföldun á núverandi framleiðslu í stöðinni.

Við þetta bætist hrognaframleiðsla Benchmark Genetics í eldisstöðinni við Vogavík, þannig að heildarframleiðsla fyrirtækisins verður um 350 milljónir hrogna, ef allt gengur eftir. Benchmark Genetics sér öllum laxeldisstöðvum á landinu fyrir laxahrognum og er eina fyrirtækið á Íslandi sem selur laxahrogn til annarra landa, segir í skýrslunni.

Til að mæta aukinni framleiðslu og hafa svigrúm til aukinnar vatnsvinnslu í framtíðinni er gert ráð fyrir að bora tvær vinnsluholur á lóð Benchmark Genetics, austan Nesvegar. Ætlunin er að auka vinnslu á grunnvatni um 700 l/s. Sótt verður um leyfi til að nýta allt að 1.500 lítra á sekúndu meðalrennsli á ári af grunnvatni (jarðsjór og ísalt vatn), að því er fram kemur í frummatsskýrslunni.

Rekur sex eldisstöðvar

Stofnfiskur hf. var stofnaður í mars 1991 af Laxeldisstöð ríkisins í Kollafirði í þeim tilgangi að sjá um kynbætur og rannsóknir á norskættuðum laxi sem hafði verið fluttur til landsins 1984-87. Stofnfiskur sérhæfir sig í kynbótum á laxi og eldi á hrognkelsum. Stofnfiskur er nú í eigu fyrirtækisins Benchmark Holding og frá janúar 2021 hefur fyrirtækið starfað undir nafninu Benchmark Genetics Iceland.

Á vegum Benchmark Genetics eru starfræktar sex eldisstöðvar og ein af þeim er eldisstöðin Kalmanstjörn. Þar hefur fyrirtækið haft starfsemi síðan 1991, en Silfurlax þar á undan. Í eldisstöðinni eru níu starfsmenn en samtals starfa um 85 manns í eldisstöðvum og á skrifstofu félagsins.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir