Í 71. skipti skilaði Emilía AK ekki aflaupplýsingum

0
167

Línu- og handfærabáturinn Emilía AK-57 hefur verið sviptur veiðileyfi í atvinnuskyni í fjórar vikur, frá 20. apríl til 17. maí, fyrir að hafa ekki skilað aflaupplýsingum til Fiskistofu í 71 aðgreindu tilviki og of seint í níu á tveimur tímabilum.

Fiskistofa metur brotin meiriháttar og telur að þau hafi verið framin af yfirlögðu ráði, enda hafi málsaðili haldið áfram að fremja brotin þrátt fyrir að vakin hafi verið athygli hans á skyldu til að skila aflaupplýsingum. Það hafi því ekki komið til greina að veita áminningu.

Þetta kemur fram í ákvörðun Fiskistofu um leyfissviptinguna sem birt hefur verið á vef stofnunarinnar. Ákvörðunin hefur ítrekunaráhrif í tvö ár.

Taldi sig eiga skilið hrós Síðara tímabilið sem um ræðir er frá 3. apríl til 25. nóvember 2022 og á þeim tíma var aflaupplýsingum ekki skilað í 56 tilvikum og of seint í níu.

Í ákvörðun Fiskistofu segir að málsaðili hafi borið fyrir sér að lögskráðir skipstjórar um borð hafi á strandveiðitímabilinu 2022 ekki sent afladagbók og að Fiskistofa hafi ekki brugðist við. Í ljósi þessi hafi verið dregin sú ályktun að ekki væri þörf á að skila aflauplýsingum til Fiskistofu þegar Emilía AK hóf gildruveiðar eftir að strandveiðitímabilinu lauk.

Fiskistofa bendir hins vegar á að með símtölum hafi rekstraraðila verið leiðbeint þegar 20. maí 2022 og svo aftur 18. og 19. október sama ár. „Í bæði skipti var málsaðila leiðbeint um skyldu skipstjóra til að skila aflaupplýsingum áður en skip er lagt að bryggju og brýnt fyrir málsaðila að fara í hvívetna að lögum og reglum um skil aflaupplýsinga,“ segir í ákvörðuninni.

Framkvæmdastjóri málsaðila hafi ekki verið sammála stofnunnini og á að hafa upplýst „starfsmanni Fiskistofu um að það  væri „prinsipp mál“ að skila ekki aflaupplýsingum til fiskistofu. Umrædd skil tækju allt of langan tíma og væri bara bull. Það sama gilti um sérveiðileyfi hans. Þess í stað ætti Fiskistofa að hrósa honum og láta hann afskiptalausan með sitt.“

Fiskistofa kveðst hafa leiðbeint málsaðila í sambandi við skil á aflaupplýsingum. mbl.is/Árni Sæberg

Má nota farsíma Fram kemur í málsgögnum að Fiskistofa hafi fyrst í erindi 23. desember 2021 upplýst útgerðaraðila Emilíu AK um skyldu til að skila aflaupplýsingum. Engu að síður var aflaupplýsingum ekki skilað í fimmtán skipti í janúar, febrúar og mars 2022.

Í þessu tilviki sagði málsaðili það varða öryggi við stjórn og siglingu skipa og vísaði til þess að notkun farsíma væri bönnuð við stjórn fiskiskipa. „Fiskistofa fellst ekki á þessi sjónarmið málsaðila. Notkun farsíma er ekki bönnuð við stjórn og siglingu skipa samkvæmt íslenskum lögum. Skipstjóri skal hins vegar sjá til þess að skipi sé stjórnað og með það farið í samræmi við góðar venjur og kunnáttu í siglingum og sjómennsku,“ segir í ákvörðuninni.

Á þessu tímabili var Mar útgerð ehf. skráð fyrir bátnum en allir eigendur þess félags og núverandi útgerðar, Emilía AK-57 útgerð ehf. eru tengdir fjölskylduböndum. Framkvæmdastjórinn hafi því verið full kunnugt um málið og fellst því Fiskistofa ekki á að stofnunin hafi setið afskiptalaus fyrri skipti sem aflaupplýsingum hafi ekki verið skilað.

Fiskistofa segir málsatvik óumdeild og „ekki uppi vafi um hina meintu háttsemi enda byggja umrædd brot á gögnum, og hvort þeim hafi verið skilað eða ekki.“