2 C
Grindavik
15. janúar, 2021

Inga Sæland vill afnema samtrygginguna

Skyldulesning

Eftir Árna Þormóðsson Árni Þormóðsson »

Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson og Flokkur fólksins vilja afnema samtryggingu sjóðfélaga í lífeyrissjóðum verkalýðshreyfingarinnar. Inga Sæland kynnir í pistli í Mbl. 24.11. sl. þingsályktunartillögu sem þau hafa lagt fram á Alþingi um að skora á fjármálaráðherra að leggja fram frumvarp, sem feli í sér eftirtaldar breytingar:

A. -Í fyrsta lagi sé það tryggt að fólk geti valið á milli þess að greiða skyldubundinn lífeyrissparnað í sjóð sem veitir hlutfallslega réttindaávinnslu eða að greiða inn á sérgreindan reikning þar sem hægt er að velja hvernig lífeyrir er ávaxtaður.

B. -Í öðru lagi viljum við að lífeyrisréttindi gangi að erfðum til lögerfingja að fullu þegar lífeyrisþeginn fellur frá. Erfingjar geti valið hvort lífeyrir verði greiddur út til þeirra beint eða hvort réttindin flytjist til erfingja innan kerfisins.

Eðlisbreyting á lífeyrissjóðunum

Samþykki Alþingi breytingar á lögum um lífeyrissjóði samkvæmt þessum tillögum þarf jafnframt að fella niður samtryggingu sjóðfélaga í lífeyrissjóðunum. Við það yrði alger eðlisbreyting á starfsemi lífeyrissjóðanna sem þá væru orðnir eingöngu vörslustofnanir sparifjár til greiðslu ellilífeyris á meðan greidd iðgjöld sjóðfélagans entust. Mjög mikilvægum öryggisþætti í kjörum launafólks væri eytt.

Gegn hagsmunum launafólks

Tillaga Ingu Sæland, Guðmundar Inga og Flokks fólksins beinist því gegn hagsmunum launafólks sem verður fyrir áföllum og þarf að njóta þeirrar tryggingar sem felst í örorku- og maka- og barnalífeyri lífeyrissjóðanna. Það er launafólkið sem þau og flokkurinn þykjast bera fyrir brjósti. Tillögurnar eru líklega settar fram vegna þess að þau sem samið hafa þær og greinargerðina fyrir þeim fjalla í fljótfærni um mál sem þau virðast ekki hafa þekkingu á, auk þess að vera illa haldin af ranghugmyndum um lífeyrissjóðina og starfsemi þeirra. Inga Sæland og ónefndir verkalýðsleiðtogar hafa lengi alið á tortryggi um starfsemi lífeyrissjóðanna og dreift þannig um þá ósannindum.

Rangar fullyrðingar

Það sem Inga Sæland skrifar í ofangreindum pistli er að hluta til samhljóða greinargerðinni með þingsályktunartillögunni, sem reyndar inniheldur, eins og pistillinn, rangfærslur og ósannindi, m.a. eftirfarandi:

-Stjórnir lífeyrissjóða ráða ferðinni. Kaldhæðnislegt en satt að stjórnirnar eru að meirihluta skipaðar fulltrúum atvinnurekenda.- Þetta er rangt og sýnir hve litla þekkingu höfundurinn hefur á því sem hún fjallar um. Stjórnir almennu lífeyrissjóðanna eru til jafns skipaðar fulltrúum verkalýðsfélaga sem aðild eiga að viðkomandi lífeyrissjóði og fulltrúum atvinnurekenda. Þannig hefur það verið frá 1970 og gefist vel.

Rétt er að geta þess að almennt greiðir fólk í lífeyrissjóði sem veita hlutfallslega réttindaávinnslu miðað við greidd iðgjöld og hefur verið svo frá upphafi. Það er engin nýjung í tillögu Ingu Sæland um að tryggja að fólk greiði í þannig lífeyrissjóð.

Varðandi þann hluta tillögu Ingu sem snýr að greiðslu iðgjalda inn á sérgreindan reikning, sem hægt væri að velja um hvernig iðgjöld væru ávöxtuð, er það ljóst að mjög væri aukið á áhættu sjóðfélaga um ávöxtun iðgjalda sinna frá því sem nú er. Fjármálafyrirtæki myndu keppast við að auglýsa ýmiss konar ávöxtunarmöguleika sem oft stæðust ekki skoðun og væru aðallega í þágu fjármálabraskara. Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna myndi stóraukast. Þessi hluti tillögu Ingu er því sniðinn fyrir fjársýslubraskara en ekki hagsmuni sjóðfélaganna.

Höfundur er eldri borgari.

Birt í Mbl. 04.12.20


Innlendar Fréttir