9.3 C
Grindavik
25. september, 2022

Innlögnum vegna Covid-19 fækkar

Skyldulesning

Landspítali

Landspítali mbl.is/Unnur Karen

Af þeim sem lágu inni á Landspítala með Covid-19 á fimmtudag höfðu færri verið lagðir inn vegna sjúkdómsins heldur en þeir sem voru lagðir inn af öðrum orsökum, en síðar reynst smitaðir. Er það í fyrsta sinn, frá því spítalinn hóf að gefa upp ástæður innlagna Covid-sýktra sjúklinga, sem slíkt gerist.

Þetta má ráða af vikulegum tölum spítalans, sem fengust í svari við fyrirspurn mbl.is.

Innlögnum vegna Covid-19 hefur farið stöðugt fækkandi að minnsta kosti undanfarinn mánuð, þó svo að sjúklingum á spítala með kórónuveirusmit hafi til að mynda fjölgað nú á milli vikna.

Af þeim 36 sjúklingum sem lágu inni á spítalanum með kórónuveirusmit á fimmtudagsmorgun, höfðu fimmtán verið lagðir inn vegna Covid-19 sjúkdómsins.

Á fimmtudag í síðustu viku voru þeir 19, viku áður voru þeir 20 og fimmtudaginn 20. janúar voru þeir 23 talsins.

Geti komið til alvarlegra veikinda

Á vef spítalans kemur vikulega fram skipting sjúklinga með kórónuveirusmit á Landspítala þar sem þeir eru flokkaðir eftir ástæðu innlagnar, þ.e. hvort þeir lögðust inn vegna Covid-19 sjúkdómsins eður ei.

Þá er einnig þriðji valmöguleikinn gefinn upp, „óvíst“, þegar ekki er hægt að meta hvort sjúklingurinn hafi verið lagður inn vegna Covid-19 eða annarra ástæðna.

Í svari Landspítala við fyrirspurn mbl.is er þó gefinn sá fyrirvari að þrátt fyrir að sjúklingur hafi upprunalega ekki verið lagður inn vegna Covid-19 þá geti komið til þess að veikindi af völdum veirunnar verði alvarleg, og jafnvel leitt til þess að það þurfi að leggja viðkomandi á gjörgæslu. 

Fleiri með lítil eða engin einkenni á spítala

Hlutfall spítalainnlagna vegna kórónuveirusmita hefur lækkað ört frá því að Ómíkron-afbrigði veirunnar varð útbreiddara hér á landi. 

Á sama tíma hefur smitum snarfjölgað. Á síðustu þremur dögum greindust fleiri innanlands með kórónuveiruna heldur en samanlagður fjöldi smita allt árið 2020. 

Sjúklingar með Covid-19 á spítala á fimmtudag voru samtals 36 talsins, þar af 17 sem lágu inni á spítala vegna annarra ástæðna. Þá voru fjórir einstaklingar þar sem ekki er vitað hvort að veikindi þeirra stöfuðu af Covid-19 eða vegna annarra ástæðna. 

Hlutfall Covid-sýktra á Landspítala sem liggja ekki inni af völdum veirunnar hefur því hækkað mikið í þessari viku í samanburði við fyrri vikur. Á fimmtudaginn í síðustu viku voru þeir 5, fimmtudaginn 27. janúar voru þeir 11 og fimmtudaginn 20. janúar voru þeir 7.

Í svörum Landspítala er tekið fram að þó að sjúklingar leggist ekki inn vegna Covid-19 þurfa allir á spítala sem greindir eru með veiruna að vera í einangrun og krefst umönnun þeirra mikils viðbúnaðar.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir