Inter vann Lazio og Napólí getur orðið meistari í dag – Vísir

0
157

Inter vann Lazio og Napólí getur orðið meistari í dag Inter kom til baka og vann Lazio 3-1 í fyrsta leik dagsins í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Það þýðir að Napólí getur orðið meistari í fyrsta sinn frá árinu 1990 vinni það leik sinn gegn Salernitana í dag.

Inter er í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti og þó Lazio sé í 2. sæti þá er ekki beint hægt að segja að liðið sé í titilbaráttu. Henrikh Mkhitaryan hélt hann hefði komið heimamönnum í Inter yfir eftir tæpan hálftíma en markið dæmt af eftir að myndbandsdómari leiksins skoðaði það betur. Það nýtti Felipe Anderson sér og kom Lazio yfir örfáum mínútum síðar, staðan 0-1 í hálfleik.

Lazio féll mjög aftarlega í síðari hálfleik og það nýttu heimamenn sér á endanum. Lautaro Martínez jafnaði metin þegar tólf mínútur lifðu leiks eftir sendingu frá Romelu Lukaku. Belgíski framherjinn lagði upp á Robert Gosens aðeins fimm mínútum síðar og Inter komið 2-1 yfir. Martínez var svo aftur á ferðinni í uppbótartíma og Inter vann góðan 3-1 sigur.

Sigurinn lyftir Inter upp í 4. sætið með 57 stig líkt og bæði AC Milan og Roma en Inter er með bestu markatöluna. Lazio er áfram með 61 stig í 2. sætinu.