-1 C
Grindavik
21. janúar, 2021

Ísland 1918: Dánartalan samsvaraði 1500, eldgos í lok langverstu kreppunnar.

Skyldulesning

Tveir dagar á árinu 1918 standa upp úr í sögunni: 15. júlí þegar samkomulag varð um Sambandslögin svonefndu, sem tryggðu Íslendingum fullveldi og rétt til þess að gerast lýðveldi 25 árum síðar og síðan fullveldisdagurinn sjálfur, 1. desember, fyrir réttum 102 árum. 

Að þjökuð og sárafátæk örþjóð á mörkum hins byggilega heims skyldi áorka þessu er kraftaverk, sem vert er að mun meira á lofti en gert hefur verið.  

Árið áður, 1917, hafði dunið yfir langversta efnahagskreppa 20. aldarinnar, sem gerir núverandi kreppu að hjómi einu í samanburðinum, svo langt niður fóru lífskjör þjóðarinnar, neðar en í kreppunni miklu á fjórða áratugnum.  

Árið hafði byrjað með frostavetrinum mikla og nýlokið var miklu Kötlugosi sem olli gríðarlegu tjóni. 

Verst var þó drepsóttin, sú versta síðustu tvær aldir, sem geysaði haustið 1918 og var ljúka við að leggja 500 manns í gröfina þegar fullveldisdagurinn var þó haldinn hátíðlegur.  

Talan 500 gefur ekki rétta mynd, því að þjóðin var þrisvar sinnum fámennari þá en nú, þannig það þessi dánartala samsvaraði 1500 látnum nú. 

Hvernig skyldi okkur líða nú ef tíu sinnum fleiri væru dánir úr drepsótt en horfst er nú í augu við? 

Ofan á þetta bættist að Ísland var eitt fátækasta land Evrópu. Bílaöldin var ekki komin enda landið að mestu vegalaust og ekki bílfært á milli landshluta.

Flug var ekki komið né útvarp og meirihluti húsakosts torbæir. 

Þegar alls þessa er gætt, er full ástæða til að lúta höfði og votta þeim formæðrum og forfeðrum okkar virðingu, sem sem barðist við óblíð öfl en eygði þó von um að þrátt fyrir þessar aðstæður væri að renna hér upp frelsisvor í krafti einbeittrar jákvæðni og baráttuhugar. 

FRELSISVOR. 

Frelsisvor – framtíðarspor! Frelsisvor – áræði´og þor!

Það var árið með drepsótt og eldgos og ís

en samt árið sem birtist oss vonanna dís. 

Líkt og morgunsól albjört í austrinu rís

hófst nú öld þegar lausnin var vís.  

Þá var sungið um vorið hið ljúfasta ljóð

eftir lamandi vetur með svita og blóð. 

Það var söngur um frjálsa og fullvalda þjóð

og hinn fegursta hugsjónaóð. 

Eftir aldanna böl var loks birtu að sjá

þegar brustu hér hlekkirnir þjóðinni á. 

Máttur fjöldans úr læðingi leystur var þá

svo að ljómaði gleði á brá. 

Frelsisvor – framfaraspor! Frelsisvor – áræði´og þor!

Síðan flogin er glæsileg framfaraöld

þegar færð voru´í landið hin ítrustu völd; 

þegar lýðveldi stofnaði fagnandi fjöld

svo að fært var á sögunnar spjöld. 

Landið og fólki, lifandi mál, 

ljóðin og sögurnar, þjóðlífsins sál, 

tónar og myndir, formæðra fjöld, 

fósturjörð hjartkær, andi og hold!

Undir fánanum bjarta nú brunar vort fley

inn í brim nýrrar aldar í vonanna þey. 

Þó að gefi á bátinn þá æðrumst við ei, 

heldur eflist hver sveinn og hver mey. 

Enn er sungið um vorið hið ljúfasta ljóð

þegar logar á tindunum jöklanna glóð. 

Það er söngur um frjálsa og fullvalda þjóð

og hinn fegursta hugsjónaóð. 

Frelsisvor – framfaraspor!  Frelsisvor – áræði´og þor!


Innlendar Fréttir