Ísland hrapar niður í 18. sæti á lista yfir fjölmiðlafrelsi í heiminum

0
74

Ísland fellur um þrjú sæti milli ára í vísitölu samtakanna Blaðamenn án landamæri sem mælir fjölmiðlafrelsi í 180 ríki heimsins og var birt í dag. Ísland situr nú í 18. sæti listans. Það er lægsta sæti sem Ísland hefur setið í síðan 2016, en Ísland mældist oftast nær í efstu sætum listans framan af þessari öld. Þannig var Ísland í fyrsta sæti á lista samtakanna yfir þau lönd þar sem fjölmiðlafrelsi var mest árið 2008 og í öðru sæti tveimur árum síðar.

Frá þeim tíma hefur Ísland hrapað hratt á listanum. Fyrsta fallið kom á árunum 2015 og 2016, þegar Íslandi féll niður í 19. og 21. sæti listans. Það var komið í 10. sæti árið 2017 og hefur verið í 15. til 16. sæti á síðustu árum. Nú er Ísland, líkt og áður sagði, komið í 18. sætið. 

Áfram sem áður raða nágrannalönd okkar sér í efstu sætin. Noregur trónir á toppnum á meðan að Danmörk, Svíþjóð og Finnland sitja í sætum þrjú til fimm. Í öllum þessum ríkjum er umfangs­mik­ill rík­is­stuðn­ingur við einka­rekna fjöl­miðla. Inn á milli smeygir Írland, annað nágrannaland Íslands, sér í annað sætið úr því sjötta á milli ára. 

Sjávarútvegur ógni sjálfstæðinu Í rökstuðningi fyrir stöðu Íslands er tiltekið að fjölmiðlar hérlendis njóti skilvirkrar lagaverndar og mikils trausts almennings, en að sjálfstæði þeirra, sem þegar sé veikt vegna smæðar markaðarins, standi frammi fyrir ógnum frá sjávarútvegi, helstu atvinnugreinum landsins.

Mikil samþjöppun eignarhalds marki lítinn fjölmiðlamarkað. 

Ljóst er að vísitalan er unnin áður en greint var frá því að Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins og tengdra miðla, var tekið til gjaldþrotaskipta fyrir um mánuði og því gengið út frá að á Íslandi séu tvö dagblöð og fjögur stór fjölmiðlafyrirtæki: RÚV, Sýn, Árvakur og Torg. Eftir þá atburði hefur dagblöðunum hins vegar fækkað í eitt, Morgunblaðið, og stóru fjölmiðlafyrirtækjunum í þrjú, sem dregið hefur enn frekar úr fjölræði á fjölmiðlamarkaði. Árvakur, sem gefur út Morgunblaðið, er að uppistöðu í eigu aðila sem tengjast sjávarútvegi og Sýn er í skráð á hlutabréfamarkað. Torg var í eigu Helga Magnússonar áður en útgáfufélagið fór í þrot, en hann var meðal annars einn þeirra sem stóð að stofnun stjórnmálaflokksins Viðreisnar á sínum tíma.

Blaðamenn án landamæra segja að stórir innlendir fjölmiðlar njóti almennt sjálfstæðis, séu verndaðir af lögum sem og eigin stöðlum sem fagfélög og stofnanir setja þeim, til að mynda siðareglur Blaðamannafélags Íslands. Blaðamenn séu þó viðkvæmari fyrir áhrifum frá sveitarfélögum og fyrirtækjum. Undanfarin ár hafi Alþingi þjónað sem vettvangur fyrir harkalega gagnrýni á blaðamenn. Margir fréttamenn líti á mörg þeirra ummæla sem þar falla sem pólitískan þrýsting.

Blómaskeið þegar spillingarmál voru opinberuð Í umfjölluninni segir að rannsóknarblaðamennska hafi upplifað ákveðið blómaskeið á Íslandi á síðustu árum og samhliða því hafi verið upplýst um stór spillingamál. Auglýsingatekjur, sem þegar voru takmarkaðar vegna smæðar markaðarins, hafi almennt dregist saman í kórónuveirufaraldrinum.

Til að bæta upp hefur ríkisstjórnin veitt fjölmiðlum fjárhagslegan stuðning, þó sumir óttist að átakið hygli stærstu fjölmiðlafyrirtækjunum á kostnað hinna minni, sem dragi úr fjölhyggju á markaðnum. Þar er um að ræða endurgreiðslur á hluta af kostnaði við rekstur ritstjórna sem greiddir eru út einu sinni á ári. Áætlað er að 377 milljónir króna verði veittar til einkarekinna fjölmiðla í ár í gegnum það kerfi, en í fyrra skiptust styrkirnir niður yfir tuttugu fjölmiðlafyrirtæki. Eftir að reynt var að miðla 100 milljónum króna til fjölmiðlafyrirtækisins N4 úr ríkissjóði framhjá styrktarkerfinu, en sú tilraun stöðvuð á lokametrunum, var ákveðið var að fjár­­fram­lagið myndi renna inn í styrkja­­kerfi fyrir einka­rekna fjöl­miðla. Það hækkar þá upp­­hæð sem þar verður til úthlut­unar í eitt skipti úr 377 millj­­ónum króna á næsta ári, í 477 millj­­ónir króna. Auk þess stendur til að stuðn­ing­ur rík­is­sjóðs við einka­rekna fjöl­miðla verðiaukinn um 400 millj­ón­ir króna á ári, sam­kvæmt fyr­ir­liggj­andi fjár­mála­áætl­un.

Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar verður stendur til að miðla viðbótarfjárhæðinni til fjölmiðla í gegnum skattaívilnun og er aðgerðinni ætlað að hvetja fjölmiðla til að taka upp áskriftarfyrirkomulag. Útfærsla á leiðinni var þó ekki tilgreind í áætluninni.

Ófrægingarherferð gegn blaðamönnum Blaðamenn án landamæra segja að íslenskir fjölmiðlar njóti talsverðs trausts almenning og að borgarar landsins hafi treyst þeim vel til að flytja nákvæmar og réttar fréttir af kórónuveirufaraldrinum. Sjálfstæði blaðamanna sé hins vegar ógnað af viðskiptahagsmunum, sérstaklega sjávarútvegs, sem gegnir mikilvægu hlutverki í efnahagslífi landsins. Stór fyrirtæki séu eigendur fjölmiðla, sem varpi fram spurningum um hagsmunaárekstra.

Þar enduróma samtökin meðal annars framsetta skoðun Samkeppniseftirlitsins sem sagði í umsögn um fjölmiðlafrumvarp fyrir nokkrum árum að brýnt væri að stuðn­ingur við fjöl­miðla af almannafé hefði það að meg­in­­­mark­miði að styðja við fjöl­ræði og fjöl­breytni. „Í þessu sam­­­bandi hefur Sam­keppn­is­eft­ir­litið í huga að eign­­­ar­hald stærri einka­rek­inna fjöl­miðla hefur í vax­andi mæli þró­­­ast á þann veg að eign­­­ar­haldið hefur færst á hendur fjár­­­­­sterkra aðila sem standa fyrir til­­­­­tekna skil­­­greinda hags­muni í íslensku atvinn­u­­­lífi. Í sumum til­­­vikum blasir við að ráð­­­stöfun þess­­­ara aðila á fjár­­­munum í fjöl­miðla­­­rekstur hefur það meg­in­­­mark­mið að ljá hags­munum við­kom­andi aðila enn sterk­­­ari rödd og vinna þeim þannig frek­­­ari fram­­­gang.“ 

Þá benda samtökin á að frá árinu 2020 hafi blaðamenn sem komið hafi að því að rannsaka og flytja fréttir af Samherja og meintum lögbrotum og spillingu þess fyrirtækis í Namibíu, Íslandi og víðar, hafi orðið fyrir ófrægingarherferð. Opinberun Kjarnans og Stundarinnar, sem sameinuðust undir merkjum Heimildarinnar í upphafi þessa árs, á starfsháttum „skæruliðadeildar Samherja“ í maí 2021 leiddi til þess að stjórnmálamenn og félagasamtök fordæmdu framferði fyrirtækisins. Það baðst afsökunar á framgöngu sinni gagnvart blaðamönnum og ýmsum öðrum og síðar afsökunar á ámælisverðum viðskiptaháttum í Namibíu. Þeir blaðamenn sem skrifuðu þær opinberanir hafa verið til rannsóknar hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra fyrir meint brot gegn friðhelgi einkalífs vegna þeirra skrifa í tvö ár. 

Umhverfið „slæmt“ í sjö af hverjum tíu löndum Í samantekt Blaðamanna án landamæra er 180 löndum og svæðum raðað upp í röð eftir fjöl­miðla­frelsi. Hún byggir á því að sér­­fræð­ingar svara spurn­inga­list­­anum sem gerður er af sam­tök­un­­um. Þau svör eru síðan greind og lönd­unum gefin ein­kunn. Því hærri sem hún er, því meira er fjöl­miðla­frels­ið. Nor­egur fær til að mynda ein­kunn­ina 95,18.

Ísland fær hins vegar 83,19 og stiga­­fjöldi lands­ins eykst um 0,5 á milli ára. 

Norð­­­ur­-Kór­ea vermir neðsta sæti list­ans en skammt fyrir ofan það einræðisríki situr stórveldið Kína, í sæti 179. Samkvæmt niðurstöðu samtakanna er ástand fjölmiðlafrelsis „mjög alvarlegt“ í 31 landi, „erfitt“ í 42, „vandasamt“ í 55 og „gott“ ” eða „fullnægjandi“ í 52 löndum. Það þýðir að umhverfi blaðamennsku sé „slæmt“ í sjö af hverjum tíu löndum og viðunandi í aðeins þremur af hverjum tíu.

Fyrirvari um hagsmuni: Í fréttinni er fjallað um atburði sem tengjast Heimildinni og starfsmönnum fjölmiðilsins beint.