Ís­land í krefjandi riðli á EM 2024 í Þýska­landi – Vísir

0
48

Ís­land í krefjandi riðli á EM 2024 í Þýska­landi Aron Guðmundsson skrifar 10. maí 2023 15:28

Dregið var í riðla fyrir Evrópu­­mótið í hand­­bolta 2024 í Dus­­seldorf í Þýska­landi klukkan í dag og lentu Strákarnir okkar í ís­­lenska karla­lands­liðinu í riðli með Ung­verja­landi, Serbíu og Svart­fjalla­landi.

Drátturinn fór fram við hátíðlega athöfn í Dusseldorf í Þýskalandi en þar mun opnunarleikur mótsins á milli Þýskalands og Sviss fara fram þann 10.janúar 2024. 

Íslenska landsliðið mun mæta afar kunnuglegum andlitum í leiknum gegn Ungverjalandi en leiðir þessara þjóða hafa oft legið saman á stórmótum undanfarið.  Ungverjar hrósuðu sigri í síðasta leik liðanna á HM í upphafi þessa árs.

Þá drógust nágrannaþjóðirnar Serbía og Svartfjallaland einnig í riðil Íslands og Ungverjalands. 

Fyrsti leikur Íslands á mótinu verður gegn Serbum þann 12. janúar á næsta ári. Tveimur dögum síðar mætir liðið Svartfjallalandi.

Lokaleikur Strákanna okkar í riðlakeppninni er síðan gegn Ungverjalandi þann 16. janúar. Tvö efstu lið hvers riðils tryggja sér sæti í milliriðlum.

Leikir Íslands í riðlakeppninni fara allir fram í Ólympíuhöllinni í Munchen. 

Riðlarnir á EM 2024 í Þýskalandi:

A-riðill: Frakkland, Þýskaland, N-Makedónía, Sviss

B-riðill: Spánn, Króatía, Austurríki, Rúmenía

C-riðill: Ísland, Ungverjaland, Serbía, Svartfjallaland

D-riðill: Noregur, Slóvenía, Pólland, Færeyjar

E-riðill: Svíþjóð, Holland, Bosnía, Georgía

F-riðill: Danmörk, Portúgal, Tékkland, Grikkland

Óvíst hver stýrir liðinu Ekki er komið á hreint hver landsliðsþjálfari Íslands verður á komandi Evrópumóti. Enn hefur ekki verið gengið frá ráðningu á nýjum landsliðsþjálfara en samstarf HSÍ við Guðmund Guðmundsson lauk þann 21. febrúar fyrr á þessu ári.

Þetta er þegar orðin lengsta bið eftir nýjum landsliðsþjálfara í fjóra áratugi eða síðan að það tók heilt sumar að ganga frá ráðningu Bogdan Kowalczyk sumarið 1983.