2 C
Grindavik
24. nóvember, 2020

Íslendingar „með snert af mótþróaröskun“

Skyldulesning

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir á Alþingi.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, lýsti yfir áhyggjum af því á Alþingi að ríkisstjórnin beini ekki fjármagninu til að koma til móts við fyrirtæki vegna kórónuveirunnar til þeirra sem raunverulega þurfa á því að halda.

Meðal annars nefndi hún að brúarlánin hafi ekki skilað sér til fyrirtækja og sagðist hafa áhyggjur af stöðu lítilla fyrirtækja og einyrkja.

Þorgerður hrósaði einnig sóttvarnalækni og þjóðinni allri vegna viðbragða hennar við kórónuveirufaraldrinum. „Við höfum oft verið talin með snert af mótþróaröskun í gegnum tíðina,“ sagði hún en tók fram að Íslendingar hafi staðið sig vel í að fylgja sóttvarnareglum og meðal annars lært að bíða í biðröðum.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, svaraði fyrirspurn Þorgerðar og sagði lokunarstyrki og tekjufallsstyrki vera með viðmið um rekstarkostnað til að mæta þeim. Miðað er við einn til fimm starfsmenn í þeim efnum. „Þetta sýnir að við erum að teygja okkur til lítilla og meðalstórra fyrirtækja,“ sagði hann. „Eftir því sem þau verða stærri verður styrkurinn minni hlutfallslega.“

Bjarni Benediktsson.

Hann sagði alla hafa notið góðs af frestun gjalddaga og að m.a. fyrir tilstuðlan Seðlabankans, hafi fyrirtæki ekki lent í greiðsluþroti eins og margir höfðu spáð fyrir. Bjarni sagði tekjufallið sitja eftir og að von sé á frumvarpi um stuðning til fyrirtækja fram á næsta ár.

Þorgerður Katrín sagði fyrirtæki hafa þurft að loka fyrst og fremst út af stjórnvaldsaðgerðum og að koma þurfi til móts við þau. Nefndi hún listafólk, hárgreiðslufólk og nuddara sem dæmi. „Ég tel að það sé rangt að aðgerðir okkar séu ekki að virka,“ svaraði Bjarni og nefndi að ferðaþjónustan hafi til að mynda nýtt sér greiðslufresti. „Við erum einmitt að ná þangað sem tekjufallið hefur orðið langmest.“

Innlendar Fréttir